Fréttir

Eins stigs ósigur KFÍ gegn ÍA

Körfubolti | 25.10.2014
Tímabilið byrjar brösulega hjá Birgi þjálfara og lærisveinum hans, með naumum töpum, en þó er margt jákvætt í leik liðsins sem gefur fyrirheitum að gegni liðsins snúist við.
Tímabilið byrjar brösulega hjá Birgi þjálfara og lærisveinum hans, með naumum töpum, en þó er margt jákvætt í leik liðsins sem gefur fyrirheitum að gegni liðsins snúist við.

Í gærkvöldi tapaði karlalið KFÍ naumlega í spennuleik gegn ÍA 70-71 hér heima. Veturinn hefur því byrjað brösulega hjá liðinu sem hefur ekki enn unnið leik í deildarkeppninni. Allir hafa ósigrarnir verið naumir og leikirnir spennandi enda tapast með litlum mun. ÍA hafði fyrir leikinn unnið einn leik á móti Þór Akureyri en tapað einum gegn Breiðabliki.

 

Í upphafi leiks voru ÍA menn grimmari en slæmar byrjanir hafa einkennt leiki KFÍ það sem af er vetri.  ÍA náði yfirhöndinni í byrjun og KFÍ þurfti að elta fyrstu 5 mínúturnar en náði að jafna stöðuna á fimmtu mínútu.  Eftir það gáfu ÍA-menn aftur í og voru ávallt skrefi á undan það sem eftir lifði leikhlutans.

 

Í öðrum leikhluta héldu Skagamenn áfram grimmdinni í sínum leik og leiddu verðskuldað með 7 stigum í hálfleik.

Þrátt fyrir að verða 10 stigum undir í þriðja leikhluta héldu KFÍ áfram að berjast og náðu að minnka munin í lok leikhlutans niður í 3 stig.

 

Í síðasta leikhlutanum var spennan í hámarki og tókst heimamönnum að koma sér aftur inn í leikinn með góðu framtaki Birgis Björns og Nebojsa en tvívegis náðu þeir að jafna leikinn á síðustu mínútunum. Í blálokin fékk Panche Ilievski opið þriggja stiga skot sem hefði gert út um leikinn en það geigaði.  Í kjölfarið fór ÍA í sókn þar sem brotið var á Áskeli Jónssyni, leikmanni ÍA, sem fékk tvö vítaskot. Hann setti annað vítið niður og kom ÍA í eins stigs forystu. KFÍ náði einu loka skoti á körfuna sem ekki rataði ofan í og þar með var sigur ÍA staðreynd.

 

Hjá KFÍ voru Nebojsa og Birgir bestu menn liðsins.  Nebojsa endaði með 28 stig og 5 fráköst, Birgir var með 18 stig og 23 fráköst, Panche var með 9 stig og aðrir leikmenn með minna.

 

Besti maður vallarins var Áskell Jónsson hjá ÍA sem skoraði mikilvægar körfur í leiknum og tryggði liði sínu sigurinn á síðustu sekúndunum.  Áskell endaði með 26 stig.  Fannar Helgason var einnig drjúgur fyrir ÍA með 19 stig.  Hann spilaði grimma vörn á Birgi og átti heilt yfir góðan leik.

 

Fyrstu leikir liðsins eru vonbrigði og sérstaklega sárt að tapa með eins stigs mun í annað skiptið á tímabilinu. Það eru þó margir jákvæðir þættir í leik liðsins. Vörnin er tiltölulega sterk og með auknu framlagi fleiri leikmanna liðsins þá má búast við að gengni liðsins snúist við.

Deila