Fréttir

Enn eitt tapið á heimavelli

Körfubolti | 17.11.2014
Nebojsa Knezevic átti góðan leik á föstudag en það dugði ekki til að landa sigri.
Nebojsa Knezevic átti góðan leik á föstudag en það dugði ekki til að landa sigri.

KFÍ tapaði gegn Breiðablik í 1. deild karla síðastliðinn föstudag. Líkt og svo oft í vetur var það hlutskipti KFÍ strákanna að elta gestina sem komust fljótlega yfir og héldu forystunni út leikinn. Okkar strákar voru samt alltaf inn í leiknum og misstu gestina aldrei langt fram úr sér. En það vantaði áræðni og kraft til að taka leikinn yfir og ná undirtökunum.

 

Gestirnir mættu ákveðnir til leiks og náðu góðu forskoti í fyrsta fjórðungi. Í öðrum fjórðungi vöknuðu KFÍ strákarnir af værum blundi og náðu góðum kafla og í hálfleik munaði aðeins tveimur stigum og staðan var 43-45 gestunum í vil. Gestirnir mættu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og héltu undirtökunum allt þar til leik lauk en ágætur kafli KFÍ undir lokin dugði ekki til að jafna leikinn.

 

Líkt og fyrr í vetur leiddi Nebojsa Knezevic heimamenn með 29 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Birgir Björn átti einnig ágætan leik með 18 stig og 10 fráköst. Pance Ilievski setti 14 stig og Stefán Diegó Garcia átti mjög góða innkomu í fyrri hálfleik í sínum fyrsta leik í vetur, sýndi góða baráttu, setti 7 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar á 16 mínútum. Hann var hinsvegar óheppinn með villur og fór útaf með fimm á þrítugustu mínútu leiksins.

 

Hjá gestunum var Egill Vignisson bestur með 27 stig og 11 fráköst. Næstur kom Nathen Garth með 21 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Halldór Halldórsson 18 stig og Pálmi Geir Jónsson 12.

 

Nákvæma tölfræði leiksins má nálgast á heimasíðu KKÍ.

 

Næsti leikur KFÍ er heimaleikur gegn Val þann 21. nóvember hér heima.

Deila