Fréttir

Enn sigrar B-liðið - Úrslitakeppnin næst

Körfubolti | 22.03.2016

B-lið meistaraflokks KFÍ, betur þekkt sem flaggskipið, mætti heimamönnum í Kormáki á Hvammstanga í gær í síðasta leik 3. deildarinnar fyrir úrslitakeppnina.

Lið KFÍ var óvenju vel skipað og fagurt í leiknum en glæsileikinn einn og sér dugði ekki til á upphafsmínútunum enda fóru heimamenn leikandi létt að því að skora 7 af fyrstu 9 stigum leiksins. Þegar menn loksins áttuðu sig á því að Kormáksmenn væru ekki beint með stjörnurnar í augunum yfir því gestirnir hefðu flestir spilað nokkrar mínútur í 1. deildinni eða unnið einhverja titla fyrir einhverjum áratugum að þá fór leikur B-liðsins að braggast talsvert.

B-liðið varð fyrir áfalli þegar Daníel Freyr Friðriksson, leikstjórnandi liðsins, þurfti að fara af velli í þriðja leikhluta vegna meiðsla sem hann hlaut í fyrri hálfleik eftir að hafa verið trukkaður niður af einum bóndasyninum. Ekki skánaði ástandið í fjórða leikhluta þegar Magnús Heimisson þurfti að fara af velli vegna bakmeiðsla sem hann hlaut, ótrúlegt en satt, eftir að hafa verið trukkaður niður af leikmanni heimamanna. Þess má geta að dæmdar voru 35 villur á heimamenn í leiknum en einungis 17 á lið KFÍ, sem flestar voru að sjálfsögðu rangar og ósanngjarnar að þeirra sögn. Ásetningsvillan sem Magnús fékk fyrir að láta 4 mótherja og 3 samherja hoppa og traðka ofan á sér var þó að öllum líkindum rétt.

 

 

Í kjölfar þess að Magnús var borinn af leikvell þá gerði Shiran Þórisson, spilandi þjálfari og forseti B-liðsins, taktíska skiptingu og skipti inn Sturlu Stígssyni með það að leiðarljósi að hafa einhvern inn á sem spilaði vott af vörn, því guð þinn veit að ekki var hann að fara að spila neina sókn. Gekk það algjörlega eftir því heimamenn skoruðu einungis 4 stig það sem eftir lifði leiks. Vendipunkturinn sóknarlega var hins vegar klárlega tveir ósvaraðir þristar frá Florijan í röð og lét þjálfari B-liðsins alla í húsinu vita að þetta væri búið eftir það.

 

 

Flaggskipið kláraði leikinn með því að skora 19 af síðustu 23 stigum hans, 62-82 sigur því staðreynd og úrslitakeppnin næst á dagskrá.

Florijan átti enn einn stórleikinn með 35 stig, Shiran setti niður 17 stig og Jóhann Jakob 15 stig. Gamla brýnið Birgir Örn Birgisson átti bæði stórleik í fráköstunum og frá vítalínunni hvaðan hann skoraði öll sín stig.

Liðið í heild beið þó afhroð frá vítalínunni enda múruðu menn 17 af 44 vítaskotum liðsins í leiknum (merkilegt nokk þá átti Andri Már Einarsson engan þátt í því þrátt fyrir að vera að læra múrun). Það er því ljóst að liðið mun taka stífar vítaskotsæfingar í páskafríinu.

Deila