Vestri lagði ÍA á Akranesi 84-96 í næst síðustu umferð 1. deildar karla síðastliðinn sunnudag. Með fullri virðingu fyrir andstæðingnum má segja að þetta hafi verið skyldusigur enda ÍA án sigurs í deildinni á meðan Vestri er í toppbaráttunni.
Sögulegur leikur
Þessi leikur verður þó í minnum hafður fyrir þær sakir að sá sögulegi viðburður átti sér stað að feðgar léku saman í liði Vestra í fyrsta sinn. Þetta voru þeir Baldur Ingi Jónasson (46 ára) og Ingimar Aron Baldursson (19 ára). Eftir frækilega framistöðu Baldurs gegn Haukum C í síðustu umferð 3. deildarinnar með Flaggskipi (B-liði) Vestra gat Yngvi Páll yfirþjálfari einfaldlega ekki gengið framhjá Baldri. Þessi síungi leikmaður hefur verið frábær í vetur með Flaggskipinu, skorað 137 stig eða 17,1 að meðaltali í leik og alls 37 þrista í 8 leikjum. Þeir feðgar, Baldur og Ingimar, hafa áður tekið þátt í sama leik í 1. deildinni en þá sem mótherjar í liðum Ármanns og Vals. Það var því kominn tími til að þeir feðgar léku saman.
Körfuboltasagnfræðingar Vestra hafa legið yfir sögubókunum undanfarna daga og komist að þeirri niðurstöðu að hér sé líklega um einstakan atburð að ræða. Feðgarnir Kári Marísson og Axel Kárason léku um skeið saman með Tindastóli rétt eftir aldamót og feðgarnir Alexander og Andrey Ermolinskij léku saman með ÍA skömmu fyrir aldamót. Yngri sonur Alexanders, landsliðsmaðurinn Pavel Ermolinskij, lék svo með föður sínum í Skallagrími veturinn 2001-2002. En eftir því sem næst verður komist hafa engir feðgar á Íslandi áður náð því að leika bæði sem samherjar og mótherjar í 1. deild eða úrvalsdeild.
Það er óhætt að óska þeim feðgum til hamingju með þennan skemmtilega áfanga og hver veit nema leikirnir verði fleiri þegar fram líða stundir. Baldur Ingi er a.m.k. síungur og til alls líklegur.
Mögnuð þrenna Nebojsa
Leikurinn á sunnudag var annars nokkuð jafn en Vestri leiddi allan tímann og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Nebojsa var hreint út sagt frábær í leiknum og leiddi sína menn með magnaðri þrennu, 23 stig, 15 fráköst og 15 stoðsendingar auk þess að stela 7 boltum. Sex leikmenn Vestra skoruðu yfir 10 stig. Bakvarðaparið Björn Ásgeir og Ingimar Aron skiluðu báðir 17 stigum, Nökkvi Harðarson skoraði 11 stig og Ágúst Angantýsson og Adam Smári Ólafsson skoruðu 10 stig hvor. Helgi Snær Bergsteinsson skoraði 5 stig og kempan sjálf Baldur Ingi skoraði eina þriggja stiga körfu.
Skallagrímur í lokaumferð og baráttan um heimavallarréttinn
Nú á Vestri aðeins einn leik eftir í deildinni gegn sjálfum deildarmeisturum Skallagríms í Borgarnesi á föstudaginn kemur. Skallagrímsmenn tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í þar síðustu umferð með sigri á grönnum sínum í Snæfelli og fara því beint upp í úrvalsdeild á næsta tímabili. Vestri er enn í baráttunni við Breiðablik um heimavallarréttinn í úrslitakeppninni. Sigri Vestri í leiknum við Skallagrím er heimavallarrétturinn tryggður vegna innbyrðis viðureigna við Blika. Tapist leikurinn þurfa Vestramenn hinsvegar að treysta því að Snæfell sigri Blika á sama tíma til að halda heimavallarréttinum.
Jakinn-TV í Fjósinu
Þá má geta þess að snillingarnir í Jakinn-TV ætla að reyna að ferðast með allt sitt hafurtask í Borgarnes og sýna beint frá leiknum í Fjósinu á föstudaginn. Við flytjum nánari fréttir af því þegar þau mál skýrast en þessir heiðursmenn eiga mikið hrós skilið fyrir sinn þátt í umgjörðinni í kringum leiki Vestra í vetur og reyndar undanfarna áratugi.
Deila