Fréttir

Fimm í landslið Íslands

Körfubolti | 29.03.2019
Hilmir Hallgrímsson, Hugi Hallgrímsson, Helena Haraldsdóttir og Friðrik Heiðar Vignisson voru í dag valin í U16 og U18 landslið KKÍ.
Hilmir Hallgrímsson, Hugi Hallgrímsson, Helena Haraldsdóttir og Friðrik Heiðar Vignisson voru í dag valin í U16 og U18 landslið KKÍ.

Körfuknattleiksdeild Vestra mun eiga fimm liðsmenn í yngri landsliðum Íslands á komandi sumri en í dag tilkynnti Körfuknattleikssamband Íslands um val þjálfara í lokahópa U16 og U18 landsliðanna. Bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir voru valdir í 12 manna hóp U18 karla en þar eru þeir á yngra ári. Helena Haraldsdóttir var valin í 12 manna hóp í U16 kvenna og Friðrik Heiðar Vignisson komst í 12 manna hóp U16 karla. Áður hafði verið tilkynnt um að Gréta Proppé yrði í 18 manna hóp U15 kvenna í sumar.

Hilmir og Hugi eru nú að taka þátt í sínu þriðja landsliðsverkefni en þeir kepptu fyrir Íslands hönd í U15 og U16 landsliðunum. Helena og Friðrik voru bæði liðsmenn U15 landsliðanna í fyrra og fara því reynslunni ríkari til keppni í sumar. Gréta er síðan að stíga sín fyrstu landsliðsskref og keppir á Copenhagen PH-Invitational sem fram fer í Danmörku seinni part júnímánaðar.

Fyrsta verkefni  eldri fjórmenninganna er Norðurlandamót  U16 og U18 sem fram fer í Kisakallio skammt frá Helsinki í Finnlandi dagana 27.júní-1. júlí. Síðsumars tekur svo við Evrópukeppni FIBA. U16 lið kvenna leikur í Sofiu í Búlgaríu dagana 15.-24. ágúst., U16 lið karla leikur í Padgorica í Svartfjallalandi 8.-17. ágúst og loks leikur U18 karla í Oradea í Rúmeníu 26. júlí til 4. ágúst.

Þjálfarar Vestrakrakkanna hér heima eru Yngvi Páll Gunnlaugsson, Nebojsa Knezevic og Nemanja Knezevic en aðalþjálfarar landsliðanna eru þeir Ingi Þór Steinþórsson í U18 karla, Ingvar Þór Guðjónsson í U16 kvenna, Hjalti Þór Vilhjálmsson í U16 karla og Kristjana Eir Jónsdóttir í U15 kvenna.

Við óskum fimmmenningunum innilega til hamingju með áfangann en það er frábær viðurkenning að vera valinn í landslið Íslands, jafnt fyrir leikmann sem félagið hans. Markmið Kkd. Vestra er ávallt að fjölga í þeim hópi sem gefst færi á að taka þátt í landsliðsverkefnum KKÍ, allt frá Úrvalsbúðum og Afreksbúðum fyrir yngstu iðkendurna upp í A-landsliðin tvö.

Deila