Fréttir

Fimmti sigurinn í röð!

Körfubolti | 04.03.2020
Frá leik Vestra og Skallagríms.
Frá leik Vestra og Skallagríms.

Vestri lagði Skallagrím úr Borgarnesi að velli í kvöld í hröðum og skemmtilegum leik á Ísafirði 99-80 í gærkvöldi. Þetta var frestaður leikur sem átti upphaflega að fara fram þann 20. desember síðastliðinn. Vestri gat því ekki stillt upp öllum heilum leikmönnum liðsins því bakvörðurinn Toni Jelenkovic var ekki genginn til liðs við Vestra þá. Leikstjórnandinn Matic Macek var þó aftur kominn í hópinn eftir að hafa misst af síðast leik gegn Hamri vegna höfuðhöggs sem hann fékk, einmitt í leik gegn Skallagrími í umferðinni á undan.

Saga Vestra þetta tímabil hefur verið nokkuð lituð af meiðslum og hefur liðið í raun ekki náð að tefla fram fullmönnuðu liði síðan í fyrstu umferð mótsins. Það horfir þó vonandi til betri vegar enda eru allir heilir nú nema Hugi Hallgrímsson sem er þó á góðum batavegi og verður vonandi kominn af stað fyrir úrslitakeppnina.

Vestri hafði frumkvæðið í leiknum frá upphafi en Borgnesingar leyfði þeim þó aldrei að stinga sig af. Í fyrsta fjórðungi var mikið skorað og leiddi Vestri með 34 stigum gegn 21 að honum loknum. Í öðrum leikhluta hægðist aðeins á Vestra á meðan Skallagrímsmenn bættu í og var staðan 55-48 fyrir Vestra í hálfleik. Í seinni háfleik gerðu Borgnesingar nokkrar atlögur að því forskoti Vestra og náðu að jafna 57-57 um miðjan þriðja leikhluta. Þá bættu reif Vestri sig aftur í gang og hélt 10 stiga forystu megnið af leiknum eða þar til undir lokinn þegar munurinn var kominn í 19 stig.

Nebojsa Knezevic átti sannkallaðan stórleik og var besti maður vallarins, með glæsilega tvöfalda tvennu 35 stig og 11 stoðsendingar auk þess að taka 4 fráköst og stela 2 boltum. Nemanja Knezevic var drjúgur að vanda og hlóð í sína kalssísku tvöföldu tvennu, 19 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar. Marko Dmitrovic átti einn besta leik sinn í vetur með 14 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Matic Macek kom með kraft í sóknarleikinn að vanda og setti 13 stig og 5 stoðsendingar. Ingimar Aron Baldursson setti niður fjóra þrista með 12 stig auk 8 stoðsendinga. Hilmir Hallgrímsson setti 3 stig, tók 5 fráköst og gaf 3 stoðsendingar og Helgi Snær Bergsteinsso setti 3 stig. Aðrir skoruðu ekki en þeir Friðrik Heiðar Vignisson og Egill Fjölnisson leystu stóru mennina Marko og Nemanja af á mikilvægum tímapunktum og börðust eins og ljón og sýndu baráttu og kraft.

Það er stutt á milli leikja þessa dagana og fá strákarnir aðeins tvo daga til að jafna sig fyrir tvo heimaleiki í röð gegn Sindra frá Hornafirði. Leikirnir tveir gegn Sindra fara fram föstudaginn 6. mars kl. 19:15 og laugardaginn 7. mars kl. 15:00.

Viðtöl við þjálfara Vestra og Skallagríms má nálgast hér að neðan:

Pétur Már Sigurðsson:

Atli Aðalsteinsson:

Deila