Fréttir

Fimmtíu ár frá stofnun KFÍ

Körfubolti | 02.05.2015
Þessir herramenn stóðu vaktina fyrir KFÍ um árabil. Jón Kristmannsson (t.v.) formaður 1994-2004 og Lúðvík Jóelson (t.h.) einn af stofnendum KFÍ.
Þessir herramenn stóðu vaktina fyrir KFÍ um árabil. Jón Kristmannsson (t.v.) formaður 1994-2004 og Lúðvík Jóelson (t.h.) einn af stofnendum KFÍ.

Í dag eru stór tímamót í sögu Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar því á þessum degi, 2. maí, árið 1965 var félagið formlega stofnað. Um aðdraganda og stofnunarinnar og fyrstu ár félagsins má lesa nánar hér á síðunni. Starfsemi félagsins var öflug á fyrstu árum þess þrátt fyrir erfiðar aðstæður að mörgu leyti m.t.t. aðstöðu til æfinga og keppni og að sjálfsögðu samgangna. Segja má að nýtt blómaskeið félagsins hafi svo hafist upp úr 1990 en félagið varð deildarmeistari 1. deildar 1996 og í kjölfarið skipaði félagið sér í fremstu röð á Íslandsmóti og lék til úrslita gegn Grindavík um bikarinn árið 1998.

 

Það væri of langt mál að minnast allra þeirra frábæru leikmanna, þjálfara og sjálfboðaliða sem komið hafa að starfi KFÍ á þessum fimmtíu árum. Fjöldi fólks hefur lagt hönd á plóg við að halda félaginu gangandi í gegnum súrt og sætt og þeim ber öllum að þakka. Án þeirra væru þessi orð ekki rituð, án þeirra væri enginn körfubolti á Ísafirði.

 

Eins og áður hefur komið fram liggja önnur tímamót í loftinu því nú er unnið hörðum höndum að því að Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar stofni, ásamt fleiri íþróttafélögum á svæðinu, nýtt og öflugt fjölgreina íþróttafélag. Vonandi mun það leiða af sér a.m.k. önnur fimmtíu ár af körfuboltaiðkun á Ísafirði og norðanverðum Vestfjörðum.

Deila