Fréttir

Fjölbreytt sumar í körfunni

Körfubolti | 05.06.2020
Sumaræfingar Kkd. Vestra 2020.
Sumaræfingar Kkd. Vestra 2020.

Sumaræfingar Kkd. Vestra hefjast á mánudaginn kemur og standa til 9. júlí. Hefur framboð á sumaræfingum fyrir iðkendur félagsins aldrei verið meira. Alls er boðið upp á fjórar æfingar í viku í samfellt fimm vikur. Æft er í þremur aldurshópum og eru yngstu iðkendurnir fæddir 2010, en það eru verðandi fimmtubekkingar í grunnskóla. Stelpur og strákar æfa saman. Alla æfingatímana má sjá á meðfylgjandi mynd.

Pétur Már Sigurðsson og Gunnlaugur Gunnlaugsson halda utan um æfingar sumarsins í ár, Gunnlaugur þjálfar 5.-7. bekk en Pétur 8. bekk og eldri. Allar æfingar fara fram í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Á mánudag hefst einnig vikulangt sumarnámskeið fyrir yngstu iðkendurna, en það eru börn á leið í 1.-4. bekk grunnskóla. Námskeiðið fer fram á Torfnesi og stendur fram á föstudag. Æft er í klukkustund á dag í umsjón þjálfara félagsins. Þessum aldurshópi stendur svo til boða að taka þátt í Grunnbúðum Körfuboltabúða Vestra dagana 8.10. ágúst en þær eru undanfari þess að taka þátt í stóru búðunum.

Lokahnykkur sumarsins hjá Kkd. Vestra verða einmitt Körfuboltabúðirnar stóru sem eru þær tólftu í röðinni. Búðirnar fara jafnan fram í júní en þeim varð að fresta vegna Covid-19 og verða þær haldnar 6.-11. ágúst. Frestunin virðist ekki hafa komið að sök þar sem upppantað er í búðirnar og tekið við skráningum á biðlista sem stendur.

Dagný Finnbjörnsdóttir, umsjónarmaður yngri flokka, veitir allar nánari upplýsingar um sumardagskrá körfunnar, ýmist í facebook skilaboðum eða í síma 865-7161.

Velkomin í körfu!

Deila