Hátt í 50 keppendur Kkd. Vestra og fjölmennt fylgdarlið er nú óðum að leggja í hann á stærsta körfuboltamót landsins, Nettómótið í Reykjanesbæ, sem fram fer um helgina. Keppendur hafa aldrei verið fleiri auk þess sem mun fleiri foreldrar og systkini fylgja börnum sínum á mótið að þessu sinni en fyrri ár. Stefnir því í að á annað hundrað manns séu á faraldsfæti á Suðurnesjunum á vegum Kkd. Vestra næstu tvo daga. Þjálfarar yngri flokka félagsins fylgja liðum sínum til keppni en talsvert skipulag þarf fyrir svo stóran hóp því Vestri leikur í alls 9 liðum.
Nettómótið er samstarfsverkefni Keflvíkinga og Njarðvíkinga og er nú haldið í 27. sinn. Þetta er langstærsta mót sinnar tegundar á landinu ætlað börnum í 1.-5. bekk. Keppendur verða hátt í 1.400 en alls hafa 23 félög boðað þátttöku sína á mótið með 238 keppnislið. Búið er að setja upp 548 leiki á 15 leikvöllum í 6 íþróttahúsum.
Tilhlökkunin er að vonum mikil í herbúðum Vestra en Nettómótið er gjarnan fyrsta alvöru mót margra körfuboltakappa. Engin stig eru talin og allir fara heim með verðlaun að móti loknu. Gestgjafarnir standa einstaklega vel að öllu mótshaldi og tryggja að ekki er dauð stund alla helgina hjá þessum vösku íþróttakrökkum. Löng hefð er fyrir þátttöku vestfirskra körfuboltakrakka á Nettó en þetta er þó í fyrsta sinn sem keppt er undir merkjum hins nýja íþróttafélags, Vestra.
Deila