Fréttir

Flaggskipið fiskaði vel á Hvammstanga

Körfubolti | 03.02.2018
Gunnlaugur að setja 2 af 31 stigi sínu. Mynd: Kormákur.
Gunnlaugur að setja 2 af 31 stigi sínu. Mynd: Kormákur.
1 af 3

Flaggskipið, B-lið Vestra, sigldi úr höfn á Ísafirði á afar ókristilegum tíma í morgun til þess að mæta Kormáki á Hvammstanga kl 13:00 í dag í 3. deild karla. B-liðsmenn hafa verið á ágætri siglingu á nýja árinu og unnið tvo af þremur leikjum sínum á meðan Kormákur kom á óvart í síðustu umferð og skellti Haukum í Hafnarfirði.

Skipstjórinn sjálfur, Birgir Örn Birgisson, átti ekki heimangengt í leikinn og í stað hans stýrði Ingimar Baldursson skútunni.

Heimamenn hófu leikinn á svæðisvörn með þeim ágæta árangri að Vestri setti niður þrjú þriggjastiga skot á upphafsmínútunum og náði fljótlega 2-11 forustu. Heimamenn náðu þó að fínstilla vörnina og miðið og komust yfir fljótlega í öðrum leikhluta.

B-liðið hélt áfram að elta næstu 20 mínúturnar en mest náði Kormákur 8 stiga forustu, 53-45, í þriðja leikhluta.

Í fjórða leikhluta sögðu Vestramenn hingað og ekki lengra og einbeittu sér að leiknum í stað þess að fræða dómarana um leikreglurnar, lífið og tilveruna. Varnarmegin lokuðu þeir algjörlega á heimamenn sem einungis skoruðu 5 stig í leikhlutanum. Sóknarlega hjuggu þeir hægt og örugglega á forskotið en pössuðu sig samt á því að halda þessu tæmilega spennandi fyrir hina fjölda mörgu áhorfendur með því að klúðra að minnsta kosti öðru hvoru vítaskoti út leikhlutann. Þegar rétt rúmlega mínúta lifði leiks þá skoraði Gunnlaugur Gunnlaugsson þriggja stiga körfu og kom Vestra yfir í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta. Mikið fát koma á heimamenn við þetta og mátti einna helst halda að boltinn hefði breyst í heita kartöflu því enginn af þeim vildi halda á honum og köstuðu þeir honum ítrekað útaf í lokasóknunum. Vestramenn, sem flestir hafa í marga fjöruna sopið í svona málum, tók þessum lokasekúndum eins og hverjum öðrum sunnudagsbíltúr og kláruðu leikinn örugglega af vítalínunni.

Gunnlaugur Gunnlaugsson fór fyrir B-liðinu og setti 31 stig í leiknum, þar af 11 af síðustu 15 stigum liðsins. Baldur Ingi Jónasson kom næstur með 12 stig og Stígur Berg Sophusson setti 9. 

Hjá Kormáki voru Mikael Þór Björnsson, fyrrum leikmaður KR, og Hlynur Rafnsson með 17 stig en Ingibjörn Pálmar Gunnarsson bætti við 13 stigum.

Stigaskor Vestra
Gunnlaugur - 31 stig, 4 þristar, 7/14 víti, 4 villur
Baldur Ingi - 12 stig, 3 þristar, 3/6 víti, 3 villur
Stígur Berg - 9 stig, 1 þristur, 2/4 víti, 3 villur
Helgi Snær - 6 stig, 1 þristur 1/4 víti
Jóhann Jakob - 4 stig, 1 villa
Sturla - 2 stig
Aleks - 4 villur
Rúnar Ingi - 1 villa

Myndasafn á Facebook síðu Kormáks

Deila