B-lið Vestra, betur þekkt sem Flaggskipið, hélt áfram sigurgöngu sinni í 3. deild karla á helginni er það mætti ÍBV og Álftanesi suður með sjó.
ÍBV - Vestri-b
Á föstudaginn héldu sex hraustustu leikmenn liðsins suður til Vestmannaeyja til að etja kappi við heimamenn í ÍBV á laugardeginum. Liðin voru bæði með sex sigra fyrir leikinn og því ljóst að úrslitin myndu hafa mikil áhrif á lokaniðurstöðu deildarinnar.
Það var ekki að sjá að sjóferðin sæti mikið í Vestramönnum því þeir höfðu tögl og hagldir á leiknum í upphafsleikhluta hans en þar fór þjálfari flaggskipsins og fyrrum landsliðsmaðurinn Birgir Örn Birgisson mikinn og tók heimamenn ítrekað í kennslustund í hvernig skuli skora undir körfunni. Þegar Birgir slakaði á, þá tók hin rauða þruman í liðinu, Helgi Bergsteinsson, við og skoraði grimmt en hann var kominn með 19 stig í hálfleik.
Í seinni hálfleik hófu heimamenn að saxa á forskotið undir forustu fyrirliðans Kristjáns Tómassonar sem gat varla klikkað á skoti á tímabili. Í byrjun fjórða leikhluta höfðu þeir unnið upp forustuna og gott betur. Liðin skiptust á forustunni út leikhlutann en þegar innan við mínúta er eftir þá fær stórskyttan Baldur Ingi Jónasson sína fimmtu villu. Heimamenn fá út úr því tvö víti sem þeir nýta bæði og ná 75-74 forustu. Vestri heldur í sókn en misnotar færi og ÍBV því með pálmann í höndunum.
Það fer þó allt út um gluggan hjá þeim því Vestramenn fá boltann aftur þegar 3,4 sekúndur lifðu leiks eftir að ÍBV hljóp á vegg og mistókst að skjóta áður en skotklukkan gall. Vestri tók leikhlé, þar sem lokaskotið var lagt upp, og fékk innkast á vallarhelmingi ÍBV. Helgi Bergsteinsson tók innkastið og fékk boltann strax aftur og hlóð í þriggja stiga skot sem geigaði. Varnarmaður ÍBV braut hins vegar á honum í skotinu og Helgi því á leiðinni á vítalínuna til að taka þrjú vítaskot með einungis 0,8 sekúndur eftir á klukkunni. Aðstoðarþjálfari ÍBV var eitthvað ósáttur við dóminn og fékk tæknivillu að launum fyrir útskýringar sínar á því hvers vegna hann var rangur. Fjórða vítaskotið bættist því við auk þess sem Vestri myndi fá boltann að þeim loknum. Helgi var svellkaldur á vítalínunni, setti niður þrjú af fjórum vítum, og tryggði Flaggskipinu 77-75 sigur.
Það var því vel fagnað í Herjólfi á leiðinni til baka þótt sumir hafi fagnað enn meira þegar í land var komið.
Vann körfuboltaleik í eyjum í gær. Stærri og persónulegri var þó sigurinn að hafa ekki ælt í helvítis Herjólfi á leiðinni til baka.
— Sturla Stígsson (@sturlast) March 25, 2018
Stigaskor
Helgi Bergsteinsson - 29 stig, 4 villur
Birgir Örn Birgisson - 18 stig, 1 villa
Jóhann Jakob Friðriksson - 12 stig, 2 villur
Baldur Ingi Jónasson - 9 stig, 5 villur
Sturla Stígsson - 6 stig, 2 villur
Aleksandar Tasev - 3 stig, 2 villur
Vestri-b - Álftanes
Á sunnudeginum sigldi Flaggskipið að Forsetahöllinni á Álftanesi og mætti þar Ungmennafélagi Álftanesar sem vermdi annað sæti deildarinnar. Álftanes hafði farið illa með B-liðið í viðureign liðanna fyrr í vetur og því var öllu tjaldað til í leiknum og stórskytturnar Pance Ilievski og Pétur Már Sigurðsson mættar til leiks í fyrsta sinn á tímabilinu.
Svo sigurviss var þjálfari B-liðsins, Birgir Örn Birgisson, að hann tilkynnti leikmönnum sínum fyrir leikinn að hann hyggðist ekkert ætla að skipta sér inn á. Hann blés einnig á allar dylgjur um að það tengdist því eitthvað að hann hefði spilað allan leikinn við ÍBV deginum áður.
Vestramenn leiddu lungan úr leiknum framan af og voru 11 stigum yfir í byrjun þriðja leikhluta. Álftnesingar náðu þá góðum kafla og byrjuðu að síga framúr í fjórða leikhluta.
En þegar fimm og hálf mínúta voru eftir, í stöðunni 58-61, þá tóku Vestramenn öll völd og skoruðu 20 stig á móti 3 stigum Álftanes það sem eftir lifði leiks. Lokastaðan 78-64 og sjöundi sigurleikur Flaggskipsins í röð staðreynd.
Helgi Bergsteinsson var stigahæstur, annan leikinn í röð, með 20 stig en næstir komu Gunnlaugur Gunnlaugsson með 18 stig og Jóhann Jakob Friðriksson með 14 stig auk þess sem hann reif niður 17 fráköst.
Með sigrinum stökk Vestri-b upp fyrir Fjarðarbyggð í 3. sæti deildarinnar, jafnt Álftanesi í sigrum en með lakara stigaskor þar sem Álftanes endaði í 130 stigum í plús en Vestri með 12 stigum í plús.
Leikurinn var einnig merkilegur fyrir þær sakir að Vestfirsku Makedónarnir Pance Ilievski og Aleksandar Tasev voru að spila saman opinberan keppnisleik í fyrsta sinn í um 20 ár en þeir léku saman í unglingaflokki í Makedóníu undir stjórn Borce Ilievski, fyrrum þjálfara KFÍ.
Stigaskor
Helgi Bergsteinsson - 20 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar, 3 villur
Gunnlaugur Gunnlaugsson - 18 stig, 10 fráköst, 4 villur
Jóhann J. Friðriksson - 14 stig, 17 fráköst, 2 villur
Baldur Ingi Jónasson - 11 stig, 6 stoðsendingar, 4 villur
Pance Ilievski - 8 stig, 10 fráköst, 2 villur
Pétur Már Sigurðsson - 5 stig, 1 villa
Stígur Berg Sophusson - 2 stig, 3 fráköst, 0 villur
Aleksandar Tasev - 2 fráköst, 3 villur
Sturla Stígsson - 1 villa