B-lið Vestra mætti Kormáki í 3. deild karla í dag en bæði lið voru að leita að sínum fyrsta sigri í deildinni.
Eftir að hafa tapað fyrstu þremur deildarleikjunum og í bikarnum á móti Fannari Ólafssyni og félögum í KR-b þá var ljóst að stórra breytinga væri þörf hjá flaggskipi félagsins og því fóru forkólfar þess á stúfana og versluðu erlendan leikmann, Aleksandar Tasev að nafni, í Nettó. Gjaldkeri félagsins maldaði eitthvað í móinn við þessum óvæntu og óumbeðnu útgjöldum en hafði ekkert út úr því nema að missa sæti sitt í byrjunarliðinu.
B-liðið byrjaði leikinn á mikilli flugeldasýningu með 4 þristum á upphafsmínútunum og náðu 12 stiga forustu, 16-4, um miðjan leikhlutann. Gestirnir voru þó ekki mættir í þennan leik til að horfa á einhverja þrettándagleði og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Undir lok annars leikhluta náðu þeir forustunni í fyrsta sinn síðan þeir skoruðu fyrstu körfu leiksins en Shiran Þórisson sá þó til þess að B-liðið færi með forustuna inn í hálfleik.
Hálfleiksskipunin var einföld, mata stóru strákana undir körfunni sem var gert. Þeir Birgir Birgisson og Stígur Berg Sophusson léku við hvern sinn fingur undir körfunni þar sem þeir skoruðu grimmt og fór B-liðið með 8 stiga forustu, 57-49, inn í lokaleikhlutann.
Slakur varnarleikur var þó til þess að hleypa gestunum aftur inn í leikinn og jöfnuðu þeir undir lokinn og því þurfti að framlengja. Í framlengingunni voru heimamenn stærri, feitari og frekari og trukkuðu í gegn sætan 81-76 sigur.
B-liðsmenn voru kampakátir í leikslok og töluðu digurbarklega um að senda A-liðinu upptökuna af leiknum sem kennslutæki í hvernig á að vinna leik í framlengingu. Af einhverri ástæðu voru þeir fljótir að láta sig hverfa þegar einhver spurði hvort A-liðið væri ekki með níu sinnum fleiri sigra í vetur.
Þess má geta að Stígur Berg setti tvö persónuleg met í meistaraflokki í leiknum bæði í skoruðum stigum og villum fengnum en þetta mun vera í fyrsta sinn sem hann kemst í gegnum heilan leik án þess að fá eina einustu villu. Tók hann sérstaklega fram að hann hefði aldrei séð jafn frábæra dómgæslu áður.
Hjá Vestra Var Baldur Ingi stigahæstur með 20 stig en Birgir Örn og Shiran bættu við 18 stigum. Hjá Kormáki var fyrirliðinn Ingibjörn Gunnarsson stigahæstur með 35 stig en næstur kom Sveinn Óli Friðriksson með 20 stig.
Vestri-b
Kormákur
Deila