B-lið Vestra, oft nefnt Flaggskipið og þá einna helst af meðlimum þess, vann sinn fimmta sigur í síðustu sex leikjum í gær er það skellti Haukum í 3. deild karla í Musterinu í Bolungarvík.
Haukar, sem bæði fyrir og eftir leikinn vermdu þriðja sæti deildarinnar, rúlluðu einmitt yfir Vestra í fyrsta leik liðanna í október þar sem þeim tókst einnig að fá hinn margrómaða rólyndismann, Baldur Inga Jónasson, kastað út úr húsi.
Leikplan þeirra fyrir leikinn í gær var svipað, stoppa Baldur með öllum tiltækum ráðum og reyna að hlæja ekki of mikið þegar restin af liðinu reyndi að gera eitthvað. Það er óhætt að segja að það gekk ekki alveg eftir enda hafa B-liðsmenn verið á stífum æfingum síðan leikinn örlagaríka í október. Vissulega tókst Haukum að halda Baldri í einungis 8 þristum og 29 stigum samtals, en með restina af liðinu var eins og að þeir hefðu hlupið á vegg, eða, eins og í sumum tilfellum, að veggurinn hafi hlaupið á þá.
Haukar byrjuðu leikinn betur og komust í 8-16 áður en díselvélarnar í Flaggskipinu komust almennilega í gang. Rúnar Ingi Guðmundsson og Gunnlaugur Gunnlaugsson, sem sérstaklega voru fengnir í hópinn til að ná niður meðalaldrinum og meðalþyngdinni, settu tóninn fyrir Vestra í fyrsta leikhluta og skoruðu til samans 17 stig í honum en B-liðið leiddi 23-21 í lok hans.
Í öðrum leikhluta var Baldur, sem hafði beðið spenntur eftir leiknum síðan í október, loks orðinn heitur og tætti í sig vörn Haukamanna af þvílíku offorsi að annað eins hefur ekki sést síðan bréfatætarar útlánsdeilda bankanna unnu þrekvirki eftir bankahrunið. Hann skoraði 17 af 26 stigum heimamanna í leikhlutanum, þar af fjórar þriggja stiga körfur, og lét þá gjalda grimmt brottrekstursins frá því fjórum mánuðum áður.
Mest komst Vestri 13 stigum yfir í leikhlutanum áður en Haukar náðu að laga muninn aðeins undir lokin og var staðan í hálfleik 49-41 fyrir heimamenn.
Í þriðja leikhluta vaknaði risinn Jóhann Jakob Friðriksson til lífsins og var á köflum eins og maður í minnibolta á móti smávaxnari og léttari Haukamönnum sem hrukku af honum eins og tómar kókdósir af vörubíl.
Í fjórða leikhluta var Birgir Örn Birgisson allt í öllu fyrir heimamenn, sama hvort það var að pakka andstæðingunum saman í vörninni, rífa niður öll fráköst, leggja upp körfur fyrir samherja eða bara koma upp með boltann og klára þetta allt sjálfur.
Haukar náðu að minnka muninn niður í 4 stig á upphafskafla fjórða leikhluta en heimamenn settu í fluggírinn á lokamínútunum og kláruðu leikinn á 28-16 áhlaupi.
Hjá Vestra var Baldur Ingi stigahæstur með 29 stig en Gunnlaugur bætti við 22 stigum og Jóhann 21 stigi. Spilandi þjálfari Flaggskipsins, Birgir Örn setti 12 stig ásamt því að taka flest fráköst sem voru í boði og Rúnar Ingi setti 8 stig auk þess að gefa fjöldan allan af stoðsendingum en hann stjórnaði leik liðsins af röggsemi þrátt fyrir að vera yngstur og léttastur í hópnum.
Hjá Haukum var Elvar Steinn Traustason Vestra erfiður, og það ekki í fyrsta sinn, en hann setti 33 stig í leiknum. Næstir komu Haraldur Örn Sturluson með 27 stig og Steinar Hafberg með 8 stig.
Eftir leikinn er Vestri komið í fjórða sæti 3. deildarinnar þegar þrír leikir eru eftir. Næsti leikur liðsins er heimaleikur á móti Álftanesi sem vermir annað sæti og fer hann fram um næstu helgi.
Hér má sjá myndbrot með helstu tilþrifum leiksins
Vestri
Baldur Ingi - 29 stig, 8 þristar, 2 villur
Gunnlaugur - 22 stig, 4 villur
Jóhann Jakob - 21 stig, 1 villa
Birgir Örn - 12 stig, 4 villur
Rúnar Ingi - 8 stig, 1 villa
Stefán Þór - 4 stig, 1 villa
Daníel Örn - 2 villur
Viðar - 0 villur
Aleksandar - 1 villa,
Sveinn Rúnar - 5 villur
Sturla - 2 villur
Haukur Rafn - 2 villur
Haukar
Elvar Steinn - 33 stig, 3 villur
Haraldur Örn - 27 stig, 4 villur
Steinar Hafberg - 8 stig, 2 villur
Brynjar Örn - 6 stig, 2 villur
Stefán Þór - 2 stig, 1 villa
Kristinn Geir - 2 stig, 2 villur
Andri - 3 villur
Eyjólfur - 0 villur