Lokaumferð Íslandsmótsins í MB11 ára í körfuknattleik fór fram á Akureyri um helgina og sendi Kkd. Vestra glæsilegan hóp 19 keppenda til leiks, þrjú lið drengja og eitt lið stúlkna. Hópinn skipa iðkendur fæddir 2007 og 2008. Mótið, sem haldið var af íþróttafélaginu Þór, tókst í alla staði mjög vel en þetta er í fyrsta sinn sem lokamót beggja kynja í þessum aldurshópi er haldið á sama keppnisstað.
Stelpurnar sigruðu alla sína leiki og unnu sig upp í A-riðil fyrir næsta keppnistímabil. Þjálfari þeirra í vetur hefur verið Guðmundur Auðun Gunnarsson, liðsmaður meistaraflokks karla. Strákarnir skiptust í þrjú lið og öttu kappi við andstæðinga í C- og D-riðlum. Þar unnustu nokkrir leikir og einhverjir töpuðust. Gunnlaugur Gunnlaugsson, liðsmaður meistaraflokks karla, hefur þjálfað strákana í vetur.
Ferðalag Vestrakrakkanna norður gekk eins og í sögu og voru krakkarnir til fyrirmyndar í einu og öllu í ferðinni. Þeir geta svo sannarlega vel unað við árangur helgarinnar. Þótt keppnistímabilinu sé nú lokið taka við Körfuboltabúðir Vestra í byrjun júní og sumaræfingar í framhaldi af því en eins og allir þjálfarar segja gjarnan: Sumarið er tíminn til að verða betri í körfubolta.
Deila