Það er óhætt að segja að Patreksfjarðarferðin hafi tekist vel. Tíminn vel nýttur í æfingar. Strákarnir kynnast betur og liðsandinn styrktur.
Samtals voru þetta 5 æfingar um helgina. Pétur Már, Jón Odds og Marta Ernst púluðu drengjunum út. Pétur sá um körfuboltaþáttinn en eðalhjónin Marta og Jón sáu um yoga og styrktarþáttinn.
Öll aðstaðan á Patreksfirði var til algerrar fyrirmyndar. Starfsfólk Íþróttahússins boðið og búið að aðstoða og sitja örlítið lengur á meðan piltarnir fóru í pottinn. Þökkum við starfsfólki hússins, Aroni Harðarmanni sem og bæjaryfrivöldum kærlega fyrir aðstoð, hjálp og aðstöðu.
Hópurinn gisti á gistiheimilinu Stekkaból og þökkum við frábæra þjónustu og aðbúnað þar.
Hópurinn var í fæði hjá Heimskautabangsanum, Víkingi Traustasyni en hann rekur veitingastaðinn Matmanninn á Patreksfirði. Það er skemmst frá því að segja að matur var frábær og var vel borðað enda veitti ekki af orkunni í átökin. Þökkum við starfsfólki Matmannsins í veitingarstaðnum Þorpinu kærlega fyrir okkur.
Deila