Fréttir

Frábær framistaða gegn Hamri þrátt fyrir tap

Körfubolti | 23.02.2018
Yngvi Gunnlaugsson og lærisveinar hans mega vera stoltir af framistöðu sinni í kvöld eftir naumt tap gegn Hamri.
Yngvi Gunnlaugsson og lærisveinar hans mega vera stoltir af framistöðu sinni í kvöld eftir naumt tap gegn Hamri.

Vestri tapaði naumlega gegn sterku liði Hamars á Jakanum í kvöld, 97-99. Þrátt fyrir tapið mega strákarnir vera stoltir af framistöðunni enda gafst liðið aldrei upp og barðist allt til síðustu sekúndu. Í lið Vestra vantaði þrjá sterka leikmenn sem myndu sóma sér í byrjunarliðum hvaða liðs sem er í deildinni. Ungir leikmenn Vestra stigu upp í leiknum og sýndu hvers þeir eru megnugir. Til gamans má geta þess að meðalaldur leikmannahóps liðsins var rétt tæp 20 ár og meðalaldur þeirra sem spiluðu rétt rúm 20 ár.

Gangur leiksins

Leikurinn var jafn til að byrja með, Hamarsmenn hittu úr öllum opnum skotum og Vestra gekk vel að finna Adam Smára undir körfunni. Upp úr miðjum fyrsta fjórðungi rifu Hamarsmenn sig frá Vestra og leiddu í lok fjórðungsins 18-33. Vestramenn komu vel stemmdir inn í annan fjórðung og minnkuðu muninn en engu að síður náði Hamar mestri forystu á nítjándu mínútu í stöðunni 30-48. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn kominn niður í í 13 stig eftir góða þriggja stiga körfu hins unga og efnilega Hilmis Hallgrímssonar, 38-51.

Í seinni hálfleik sýndu Vestramenn að þeir voru ekki af baki dottnir, þjöppuðu sér saman og börðust eins og ljón. Þriðji fjórðungur var jafn þótt Hamar hefði áfram yfirhöndina. Í loka fjórðungnum spilaði Vestri frábærlega en liðið skoraði 35 stig gegn 22 í þessum fjórðungi. Menn lögðu sig alla fram og ætluðu sér að knýja fram sigur. Því miður kom þetta áhlaupið aðeins of seint til að svo mætti verða en andinn og báráttan í liðinu var slík að við kvíðum ekki framhaldinu.

Slæm vítanýting og fráköst skildu liðin að

Þetta unga og efnilega lið Vestra sýndi hvað í því býr í kvöld og í raun má segja að tveir tölfræðiþættir hafi skilið liðin að í þessari rimmu. Annarsvegar slæm vítanýting Vestra sem var aðeins 50% í kvöld gegn 84% Hamars. Hinsvegar var það frákastabaráttan en Hamar tók alls 52 fráköst í leiknum gegn 38 fráköstum Vestra. Sóknarfráköst Hamars vógu þungt en þau voru alls 19 og skiluðu iðulega annari og jafnvel þriðju skottilraun í mikilvægum sóknum.

Nebojsa Knezevic var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins. Hársbreidd frá þrennu með 26 stig 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Adam Smári átti sinn besta leik í vetur skoraði 20 stig, með 100% nýtingu og tók einnig 7 fráköst. Hann fékk það erfiða hlutskipti að fylla miðherjastöðuna í fjarveru Nemanja Knezevic og Ágústs Angantýssonar og reis svo sannarlega undir þeirri ábyrgð í kvöld. Frábær framistaða hjá þessum 19 ára pilti! Björn Ásgeir skoraði 16 stig og gaf 4 stoðsendingar en spilaði líka flotta vörn. Fyrirliðinn Nökkvi Harðarson skoraði 11 stig og tók 4 fráköst. Hinn 16 ára gamli leikstjórnandi Hilmir Hallgrímsson stóð sig vel og skoraði einnig 11 stig og tók 4 fráköst. Ingimar Aron skoraði 7 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Hinn 16 ára gamli Hugi Hallgrímsson átti góða innkomu líkt bróðir hans Hilmir en Hugi skoraði 3 stig, tók 5 fráköst auk þess að skila góðu verki í vörn. Rúnar Ingi Guðmundsson átti einnig góða innkomu í leikinn og skoraði 3 stig.

Ítarlega tölfræði leiksins má finna á vef KKÍ.

Þrátt fyrir þetta tap geta strákarnir borið höfuðið hátt og mega svo sannarlega vera stoltir af framistöðu sinni í kvöld. Það er gott að ungir leikmenn séu búnir að fá sína eldskírn og taka úr sér hrollinn fyrir átökin framundan. Við lítum björtum augum fram á veginn!

Áfram Vestri!  

Deila