Um síðastliðna helgi tóku yfir 20 körfuboltakrakkar úr Vestra á aldrinum 6-9 ára þátt í hinu árlega Sambíómóti. Mótið, sem haldið er af Fjölni í Grafarvogi, er eitt af stærstu körfuboltamótum sem haldin eru hér á landi en um 600 krakkar tóku þátt í mótinu í ár.
Dagskrá helgarinnar var þéttskipuð en auk þess að bjóða upp á körfuboltaleiki er ýmislegt annað í boði s.s. bíóferð, sund og kvöldvaka. Lið Vestra sem tóku þátt á mótinu voru fimm talsins, tvö stelpulið og þrjú strákalið. Öll liðin kepptu fimm leiki, sýndu mikinn baráttuanda og stóðu sig með miklum sóma. Mátti sjá miklar framfarir hjá liðunum á mótinu en sumir þátttakendanna voru að stíga sín fyrstu skref á körfuboltamóti. Umfram allt var það þó leikgleðin sem réði ríkjum hjá Vestraliðunum því hún skein úr hverju andliti á meðan á mótinu stóð.
Krakkarnir skörtuðu í fyrsta sinn nýjum keppnisbúningi Vestra og vakti hann athygli annarra mótsgesta. Var haft á orði hversu vel heppnaður og fallegur hann væri.
Þjálfarar Vestrakrakkanna í 6-9 ára hópunum í vetur eru þeir Ingimar Aron Baldursson, Gunnlaugur Gunnlaugsson og Yngvi Páll Gunnlaugsson. Samtals spiluðu krakkarnir 25 leiki um helgina og engin leið fyrir þá félaga að stýra öllum þeim leikjum því margir sköruðust. Aðstoðarþjálfarar hlupu því í skarðið ásamt foreldrum og gekk allt ljómandi vel upp. Myndarlegur hópur foreldra fylgdi krökkunum eftir allt mótið og skemmtu allir sér hið besta.
Næsta stórmót þessa aldurshóps er hið margrómaða Nettómót í Reykjanesbæ sem fram fer fyrstu helgina í mars 2018.
Deila