Körfubolti | 09.03.2011
Það var stór stund þegar lagt var af stað suður til að taka þátt í Nettómótinu sem Keflavík og Njarðvík halda saman og er fyrir krakka frá 8-11 ára. Mjög stór hópur fór frá KFÍ en 26 krakkar fóru auk 20 foreldra og er óhætt að segja að allir hafi skemmt sér vel.
Markmið þessa móts er að leyfa krökkum að keppa í helbrigðu umhverfi og láta skemmtanagildi hafa forgang yfir keppni. Á Nettómótinu eru allir sigurvegarar og voru keppendur um 1300 og voru 1000 af þeim í gistingu í skólastofum. Fólkið fyrir sunnan á hrós skilið fyrir frábæra skipulagningu og ef upp komu vandamál voru þau leyst á farsælan hátt.
Við gistum í Holtaskóla sem var mjög fínt. Krakkarnir voru eins og gefur að skilja mjög lífleg, en við því er að búast enda yfir spennt öll að byrja mót. Fararstjórar okkar á föstudeginum voru Pétur Oddsson og Lindsay og stóðu þau sig frábærlega að koma öllum fyrir. Síðan bættust þau Gummi, Erna og Ómar við á laugardeginum og þá var orðið fullmannað í skólastofurnar. Þess má að gamni geta að á laugardagskvöldinu var mikill kætingur í skólastofunni og áttu nokkrir erfitt með málbeinið og að koma sér í ró. En þá las Pétur Oddsson upp úr bók eftir Alistair MacLean og hitti það gjörsamlega í mark og sofnuðu allir út frá spennuþrunginni atburðarrás bókarinnar. Og má nærri geta að drengirnir hafi allir svifið inn í draumalandið sem hetjur í von um að bjarga deginum víðs fjarri skólastofunni í Holtaskóla.
Allir þátttakendur okkar stóðu sig frábærlega og var gleðin í fyrirrúmi. Karfa, Sund, Pulsur, Pizzur, bíó, kvöldvaka, og meiri karfa var á matseðlinum og er erfitt að hverfa inn í is og þys hvers dagsins eftir að vera með "púkunum" svona skemmtilega helgi. Svo má alls ekki gleyma foreldrum barnanna, þeir voru stórkostlegir og öll vandamál sem upp komu voru leyst. Allir tóku þátt í að skutlast á milli hinna fjögurra íþróttahúsa sem við kepptum í og eiga þau miklar þakkir skildar fyrir.
Von er á fjölda mynda frá mótinu og setjum við þær inn hér og inn í sér möppu undir myndir hér til vinstri á síðunni og bið ég þá foreldra sem hafa einhverjar myndir í sínum fórum að senda á kfibasketball@gmail.com til að setja inn sem flestar fyrir krakkanna.
En hetjur helgarinnar voru "púkarnir" okkar í KFÍ. Þau fá stórt og mikið klapp fyrir að vera hress og skemmtileg. Og þjálfarinn er hrærður yfir hve kurteys og yndisleg þau voru.
Að lokum viljum við senda kveðjur til körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur sem og allra íbúa Reykjanesbæjar fyrir höfðinglegar móttökur og sjáumst að ári POTTÞÉTT :)
Áfram KFÍ.
Deila