Fréttir

Frábær sigur gegn Fjölni í Lengubikarnum

Körfubolti | 16.11.2011

Í kvöld tókum við á móti liði Fjölnis í Lengjubikarnum og var leikurinn hraður og skemmtilegur og frábær tilþrif sáust hjá báðum liðum. Lokatölur 101-83.  Strax í fyrsta leikhluta kom í ljós að bæði lið ætluðu sér að spila hraðan bolta og eftir að honum lauk var staðan 26-28 fyrir gestina og opið fyrir mikla skemmtun fyrir fjölmarga áhorfendum á Jakanum. Í öðrum leikhluta kom góður kafli hjá KFÍ og fórum við til tedrykkju í hálfleik með 6 stiga forustu, staðan 50-44.

 

Þriðji leikhluti byrjaði jafn hratt og sá fyrri endaði og bæði lið að hitta vel, en þeir Nathan og Chris öttu þarna skemmtilegt einvígi þar sem tilþrif þeirra voru einkar skemmtileg. Staðan fyrir lokahlutann var 76-69 og KFÍ ekki að hrista sprækt lið Fjölnis af sér. En það breyttist í lokaleikhlutanum það sem drengirnir á klakanum tóku öll völd og skautuðu fram hjá Fjölnispiltum og tóku lokahlutann 25-14 og lokatölur eins og áður kom fram því 101-83.

 

Liðið KFÍ lék mjög vel í kvöld og sáust oft á tíðum "tilþrif úr sparibuknum" Þar áttu Craig, Chris, Ari og Siggi Haff  og Jón Hrafn hlut að máli og munum við klippa það saman og setja á netið sem allra fyrst. En eins og oft þegar lið okkar sigrar er það vegna liðsheildar og í þetta sinn er ekkert nýtt þar. Strákanir eiga allir skilið eitt stórt "KLAPP" fyrir sitt framlag og má með sanni segja að áhorfendur hafi fengið skemmtun af betri endanum frá þeim piltum.

 

Stigahæstir hjá okkur í kvöld var Chris Miller-Willimas með 27 stig og bætti 21 frákasti við auk þess að stela 2 boltum og verja 2 skot. Craig kom næstur með nálgun á þrefaldri tvennu, 21 stig. 9 fráköst og 9 stoðsendingum auk þess að stela 3 boltum. Unglingurinn Kristján Pétur var með 19 stig (5/9 í þristum). Ari kom gríðalega heitur til leiks með nýja klippingu og þakkaði fyrir sig með 19 stigum og 4 fráköst. Jón Hrafn var frábær í vörninni og setti 7 stig auk þess að taka 7 fráköst. Siggi Haff kom svo með 6 stig og Sævar Vignisson með 2 stig.

 

Hjá gestunum var Nathan "skywalker" Walkup með 27 stig og fráköst. Calvin O´Neil kom næstur með 24 stig, 6 fráköst. Árni Ragg var með 12 stig 6 fráköst. Haukur ( 7 fráköst ), Björgvin og Arnþór bættu við 6 stigum hver og Trausti Eiríksson setti 2. það var gaman að sjá til ungu drengjana hjá Fjölni og Örvar að leyfa þeim að springa út og hoppa úr hreiðrinu. Það er besta leiðin til að kenna þeim að fljúga og verður gaman að fylgjast með þeim í vetur.

 

Hérna er brot úr leiknum og frá KFÍ-TV genginu frá meistara Fjölni Baldurssyni

 

Dómarar kvöldsins voru þeir Jón Bender og Davíð Tómasson.

 

Næsti leikur á Jakanum er n.k. sunnudagskvöld 20. nóvember í Lengjubikarnum og koma Haukar frá Hafnarfirði í heimsókn og verður það án efa hins besta skemmtun og hvetjum við alla að fjölmenna !!

 

Áfram KFÍ.

Deila