Fréttir

Frábær stemmning á Nettómótinu

Körfubolti | 08.03.2018
Fríður hópur vaskra Vestrabarna ásamt þjálfurum sínum á verðlaunaafhendingunni á Torfnesi á mánudag.
Fríður hópur vaskra Vestrabarna ásamt þjálfurum sínum á verðlaunaafhendingunni á Torfnesi á mánudag.
1 af 2

Mikil gleði ríkti á hinu árlega Nettómóti í Reykjanesbæ sem fram fór um síðustu helgi en alls kepptu 32 iðkendur Kkd. Vestra á mótinu. Þeir eru á aldrinum 6-10 ára og kepptu í alls sjö liðum, fjórum drengjaliðum og þremur stúlknaliðum. Skemmst er frá því að segja að krakkarnir okkar stóðu sig með afbrigðum vel og voru sjálfum sér, foreldrum og félagi til mikils sóma. Miklar framfarir mátti sjá í hópunum yfir helgina.

Þar sem verðlaunaafhending mótsins fer jafnan fram seint á sunnudegi, þegar Vestfirðingar eru lagðir af stað áleiðis vestur, hefur sú hefð skapast að Vestri heldur sína eigin afhendingu heima á Torfnesi á mánudag eftir mót. Svo var einnig nú. Að venju fengu allir Nettófarar verðlaunapening og í ár fengu þeir einnig körfubolta að gjöf frá mótshöldurum.

Að sögn Heiðrúnar Tryggvadóttur, ritara barna- og unglingaráðs Kkd. Vestra og yfirfararstjóra í ár, var mikil ánægja með mótið og segir hún að þrennt standi upp úr eftir ferðina. Í fyrsta lagi hvað iðkendur Vestra stóðu sig vel, jafnt inni á körfuboltavellinum sem utan hans. Hópurinn sýndi mikla prúðmennsku á kvöldvökunni og þeir sem gistu í Holtaskóla fengu hrós fyrir snyrtilegan frágang. Í öðru lagi stendur upp úr hversu mikil gleði skein af öllum iðkendum sem greinilega skemmtu sér vel. Skapaði það mjög skemmtilega stemmningu í hópnum allt mótið. Í þriðja lagi stendur upp úr hvað körfuknattleiksdeild Vestra er vel sett af flottum foreldrum sem allir lögðust á eitt við að hjálpast að og aðstoða. Þessi samheldni gerði alla upplifun af mótinu mjög góða. Heiðrún vill koma á framfæri þakklæti til allra foreldra og aðstoðarmanna sem og þjálfara fyrir samstarfið og skemmtilega samveru um helgina.

Alls tóku 27 félagslið þátt í mótinu í ár, keppnisliðin voru 262 sem léku 680 leiki á 32 klukkutímum. Leikið var á 15 völlum í samtals sex íþróttahúsum. Búist var við fleiri þátttakendum í ár en nokkru sinni í 28 ára sögu mótsins. Það eru körfuknattleiksdeildir Keflavíkur og Njarðvíkur sem hafa staðið fyrir mótinu alla tíð og gera það með miklum myndarbrag.

Löng hefð er fyrir þátttöku barna frá Vestfjörðum á þessu stóra móti. Iðkendur frá KFÍ fóru fyrst á mótið árið 2007 og hafa farið allar götur síðan. Þetta er því ellefta árið í röð sem Vestfirðingar sækja Nettómótið heim. Það hét áður Samkaupsmótið en nafninu var breytt fyrir nokkrum árum.

 

Deila