Í gær lauk vel heppnuðu körfuknattleiksþingi KKÍ í Reykjavík. Þar var KFÍ félaginn Guðni Ólafur Guðnason sæmdur gullmerki KKÍ en gullmerkið er veitt til þeirra aðila sem hafa starfað um áratuga skeið á vettvangi félaga KKÍ. Guðni, sem nýverið gekk úr stjórn KFÍ eftir áralangt starf, er svo sannarlega vel að þessum heiðri kominn. Hann hefur komið að flestum ef ekki öllum þáttum körfuknattleiksins bæði sem leikmaður, þjálfari og stjórnarmaður.
Þá var KFÍ félaginn Guðjón Þorsteinsson endurkjörinn í stjórn KKÍ en hann hefur setið í stjórn frá síðasta þingi og er ánægulegt fyrir KFÍ að eiga áfram fulltrúa á vettvangi stjórnar KKÍ næstu árin.
Af öðrum þingfréttum má nefna að tillaga KFÍ um leikmannamál var felld. Tillagan fólst í því að fallið yrði frá 4+1 reglunni sem hefur verið við lýði undanfarin tvö ár og gerir það að verkum að aðeins einn erlendur leikmaður má vera inn á vellinum í einu. Tillaga KFÍ var sú að engar hömlur væru á leikmönnum frá FIBA-Europe löndum en að aðeins einn leikmaður frá löndum utan FIBA-Europe mætti vera í hverju liði. Mikill stuðningur var innan hreyfingarinnar við að halda óbreyttu fyrirkomulagi næstu tvö árin sem sést á því að atkvæði féllu þannig að 73 voru með óbreyttu fyrirkomulagi en 38 með breytingum.
Þá voru gerðar umfangsmiklar og góðar breytingar á mótafyrirkomulagi yngri flokka sem felast m.a. í því að mótafyrirkomulag yngri flokka verða opnari og sveigjanlegri. Í yngstu flokkunum fólust breytingarnar t.d. í því að færri leikmenn eru inn á vellinum í einu og allir fá að spila meira.
Þingfullrúar voru sammála um að þingið hefði tekist vel þótt tillaga KFÍ um leikmannamál hafi ekki náð fram að ganga.
Deila