Fréttir

Fyrsti sigur tímabilsins!

Körfubolti | 09.11.2014
Birgir Björn átti góðan leik á móti Þór frá Akureyri í dag líkt og Nebojsa, en báðir skoruðu þeir 23 stig.
Birgir Björn átti góðan leik á móti Þór frá Akureyri í dag líkt og Nebojsa, en báðir skoruðu þeir 23 stig.

KFÍ vann sinn fyrsta sigur í vetur í fyrstu deild karla með sigri á liði Þórs frá Akureyri.  Þór Akureyri, eins og KFÍ var búið að tapa öllum sínum leikjum í vetur. Fyrirfram var búist við baráttuleik sem varð raunin.  Leikurinn fór að lokum 68-80 KFÍ í vil. 

KFÍ var skrefinu á undan Þór í leiknum og náði mest 20 stiga forystu.  Gott áhlaup Þórs í lok fjórða leikhluta dugði ekki til og KFÍ kláraði leikinn.  Stuðningsmenn KFÍ geta glaðst yfir því að seiglan var fyrir hendi undir lok leiksins, enda KFÍ búið að tapa undanförnum leikjum grátlega á síðustu mínútunum og þar af tveimur leikjum með einu stigi.

 

Birgir þjálfari sagði að liðsandinn og baráttuandinn hafi verið góður í leiknum.  Leikmennirnir lögðu sig fram og voru að spila góðan liðsbolta. 

 

Nebojsa og Birgir halda áfram að spila vel fyrir KFÍ og voru í þetta skipti stigahæstir liðsins með 23 stig hvor, en Birgir reif líka niður 16 fráköst, þar af 6 sóknarfráköst.  Næstur var Panche með 14 stig og Jóhann var með 10 stig og stigaskorið því að dreifast þokkalega.

 

Hjá Þór Akureyri var Arnór Jónsson stigahæstur með 22 stig og Þór tefldi fram nýjum bandaríkjamanni sem stóð sig ágætlega með 18 stig og 10 fráköst.

 

Þessi sigur er kærkominn fyrir KFÍ og mun liðið byggja á honum í næstu leikjum.  Næsti leikur liðsins er á föstudaginn kemur, þann 14. nóvember, á Ísafirði kl 19.15.  Þá mun Breiðabilk mæta á Jakann.

Deila