„Eftir þennan leik bráðnar ísinn á Jakanum“, sagði Guðjón Þorsteinsson þulur þegar leikmenn Vestra og Breiðabliks voru kynntir á leik liðanna í gærkvöldi. Strax í morgun var nefnilega hafist handa við að skipta um gólf íþrótthússins sem hefur þjónað okkur frá árinu 1993. Leikurinn var því sá allra síðastí á gólfinu og um leið síðasti heimaleikur Vestra á árinu.
En þessi leikur verður í minnum hafður af öðrum ástæðum líka. Vestramenn byrjuðu hræðilega illa og lentu 0-10 undir eftir aðeins eina og hálfa mínútu. Þótt Vestramenn hafi vaknað til lífsins skömmu seinna var þessi 10 stiga munur viðvarandi út megnið af hálfleiknum en varð mestur 16 stig Blikum í vil á þrettándu mínútur í stöðunni 17-33. En þá var botninum náð hjá Vestramönnum og þeir fundu magnaða viðspyrnu í gamla góða gólfinu. Það sem eftir lifði af öðrum leikhluta skoraði Vestri 28 stig gegn 6. Blikar sem höfðu hitt vel urðu staðir gegn vel heppnaðri svæðisvörn og einnig óheppnir í skotum sínum.
Eftir þetta var ekki aftur snúið. Það mátti meira að segja greina uppgjöf í Blikum þegar þeir komu út úr klefanum í hálfleik. Lið sem fagnaði af ákafa öllum körfum í fyrsta fjórðungi virtist nú uppteknara af því að hengja haus og horfa ofan í parketið sem senn heyrir sögunni til. Vestri náði mest 26 stiga forystu en endaði leikinn sem fyrr segir með 16 stiga sigri 96-80.
Eins og fram kemur í viðtali við Lárus Jónson, þjálfara Blika, sem Þormóður Logi hjá Jakinn-TV tók eftir leik söknuðu Blikar tveggja stórra manna í lið sitt. Bæði miðherjinn Sveinbjörn Jóhannesson og framherjinn Snorri Vignisson voru meiddir. Þetta nýtti Vestri sér vel með hinn magnaða miðherja Nemanja í broddi fylkingar. Varnarleikur Vestra var einnig til fyrirmyndar á löngum köflum. Bandarískur leikmaður Breiðabliks, Jeremy Herbert Smith, skoraði grimmt í byrjun leiks en bakverðir Vestra, þeir Björn Ásgeir, Ingimar Aron og Nebojsa gerðu vel í að stöðva hann eftir fyrsta fjórðunginn.
Besti maður vallarins var Nemanja og skilaði hann enn einni tröllatvennunni, 26 stigum, 25 fráköstum auk 4 stoðsendinga sem endaði í hvorki meira né minna en 51 framlagspunkti. Björn Ásgeir fagnaði sæti í æfingahóp U-18 landsliðsins með glæsilegum leik skoraði 23 stig, gaf 5 sotðsendingar og stal 2 boltum. Nebojsa Knezevic átti einnig góðan leik því þessi höfðingi var aðeins einni stoðsendingu frá þrennu, með 21 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Ingimar Aron baldurson var drjúgur með 12 stig úr þriggja stiga skotum, sumum á mjög mikilvægum augnablikum, auk þess að gefa 5 stoðsendingar.
Hjá gestunum var Jeremy Herbert Smith stigahæstur með 25 stig, næstur kom Ragnar Jósef Ragnarsson með 12 stig og Orri Hilmarsson með 11.
Ítarleg tölfræði er aðgengileg á vef KKÍ.
Deila