KFÍ spilaði sinn fyrsta leik í 1. deildinni í gærkvöldi gegn Þór frá Akureyri. Þrátt fyrir góða baráttu urðu KFÍ drengir að sætta sig við tap gegn sterku liði Þórs en lokatölur voru 76-90 gestunum í vil. Þess má svo geta að þetta var í síðasta sinn sem KFÍ klæðist hinum svarthvíta búningi því nýr, bláir og hvítur búningur er væntanlegur.
Byrjun leiksins var nokkuð skondin en alls voru tapaðir boltar orðnir þrír á fyrstu 14 sekúndum leiksins. Hinn stórefnilegi og hávaxni miðvörður Þórs gerði sér lítið fyrir og greip boltann í uppkastinu og var hann því dæmdur af Þór. Innkast KFÍ mislukkaðist síðan þannig Daníel Þór steig yfir á varnarvöll eftir að hafa fengið boltan, hann gerði sér þó lítið fyrir og stal boltanum af Andrew Lehman og Kjartan Helgi smellti niður stökkskoti og kom KFÍ yfir.
Eftir þessa brösugu byrjun hóf KFÍ leikinn af miklum krafti og var staðan orðin 7-1 strax á annarri mínútu fyrir KFÍ. Þórsarar náðu þó fljótt áttum og jöfnuðu 7-7 á þriðju mínútu og upp úr því var leikhlutinn nokkuð jafn. Þegar ein sekúnda var eftir af honum var brotið á Nökkva Harðarsyni fyrir utan þriggja stiga línuna og setti hann öll vítin þrjú niður og minnkaði muninn í eitt stig, 15-16.
Í öðrum leikhluta voru fóru Þórsarar að sýna klærnar af alvöru og náðu mest sextán stiga forystu. KFÍ hleypti þeim þó aldrei langt á undan sér og var staðan 33-46 í hálfleik.
Í fyrri hálfleik reyndist hinn stórefnilegi og 211 sentímetra miðvörður Þórs, Tryggvi Snær Hlinason, KFÍ óþægur ljár í þúfu. Í hálfleiknum skoraði hann 17 af 19 stigum sínum í leiknum, ófá þeirra með troðslum, auk þess að verja bolta og rífa niður fráköst.
Í upphafi þriðja leikhluta sýndi KFÍ strákar góða baráttu í vörninni, tóku sóknarfráköst og létu boltann ganga vel á milli sín. Aukasendingin skilaði góðum skotum sem rötuðu niður og tókst þeim að komast inn í leikinn aftur og minnka muninn í 8 stig á tuttugustu og fjórðu mínuu 41-49 með þriggja stiga körfu frá Daníel Þór Midgley. Aftur sigu Þórsarar lengra fram úr og sýndu mátt sinn og meginn og var munurinn 18 stig 51-69 þegar þeikhlutinn var úti.
KFÍ drengir gáfust þó aldrei upp og í fjórða leikhluta náðu þeir góðum köflum en miklu munaði þó um að bæði Kjartan Helgi og Gunnlaugur lentu í villuvandræðum í leikhlutanum og náðu ekki að ljúka honum. Lokastaðan 76-90.
KFÍ liðið er í mikilli framför og greinilegt að baráttuandi er í liðinu. Strákarnir leggja sig alla fram og spila sem lið. Það er til dæmis ánægulegt að sjá hve mikið framlag kom af bekknum í þessum leik en byrjunarliðið skoraði 42 stig á móti 34 af bekknum. Ekki má heldur gleyma því að Nebojsa er rétt að stiga upp úr meiðslum og hefur lítið getað æft undanfarnar 4 vikur, auk þess sem fleiri leikmenn eins og Kjartan Helgi og Gunnlaugur hafa átt við smávægileg álagsmeiðsli að stríða. Í þessum leik saknaði liðið líka Pance, sem snýr vonandi aftur fljótlega, auk þess sem Björgvin er meiddur. En sigur Þórsara var verðskuldaður í gærkvöldi. Þeir voru skrefinu á undan okkar mönnum megnið af leiknum. Byrjunarlið þeirra er gríðarlega sterkt sem sést kannski best á því að 86 af 90 stigum liðsins eru skoruð af byrjunarliðinu. Ef byrjunarlið Þórsara helst heilt í vetur má telja ólíklegt að mörg lið standist þeim snúninginn.
Stigahæstur hjá KFÍ var Nebojsa með 25 stig og 7 fráköst. Næstur kom Kjartan Helgi með 15 stig. Jóhann Jakob var með 8 stig, Gunnlaugur og Nökkvi með 7, Daníel og Florijan með 6 stig hvor, Helgi Hrafn með 2 og Helgi Bergsteins með 1.
Hjá gestunum var Andrew Jay Lehman stigahæstur með 22 stig. Tryggvi Snær með 19 stig, 11 fráköst og 6 varin skot og 30 framlagsstig. Þröstur Leó var með 18 stig, Ragnar Helgi með 14 og Danero Thomas með 13.
Ítarleg tölfræði er aðgengileg á vef KKÍ.
Deila