Fréttir

Góð ferð minnibolta drengja á Póstmótið

Körfubolti | 05.02.2015
Strákarnir voru hressir í bragði eftir mótið.
Strákarnir voru hressir í bragði eftir mótið.
1 af 3

Um síðustu helgi fór Póstmót Breiðabliks fram í Smáranum og í Fagralundi í Kópavogi. KFÍ sendi til leiks flokk minnibolta drengja sem stóð sig með stakri prýði á mótinu. Fyrirkomulag mótsins er sérlega skemmtilegt og lögð áhersla á leikgleði enda eru engin stig talin í leikjunum. Einnig er dómurum sérstaklega uppálagt að leiðbeina leikmönnum og útskýra dóma sína fyrir þeim svo lærdómur af þátttöku sé sem mestur.

 

Árgangur 2005 hjá KFÍ spilaði þrjá leiki á laugardeginum, fyrst við KR 5 þar sem okkar strákar spiluðu alveg hreint glimrandi og allir sem einn. Næsti leikur var við Kr 4 og þar lenti liðið í smá brekku en með mikilli baráttu náði það að rétta sinn hlut af. Þriðji leikurinni var svo gegn Hrunamönnum og var hann leikinn strax á eftir leiknum við KR 4. Þá var bensínið einfaldlega búið á okkar mönnum eftir tvo leiki og gekk því frekar illa. Þar sem engin stig eru talin voru að sjálfsögðu engin úrslit gefin út en aðspurður sagði Birgir Örn Birgisson, þjálfari meistaraflokks karla sem stýrði liðinu á mótinu í fjarveru Florians, að sín tilfinning væri sú að líklega hefðu leikirnir tveir leikir unnist og einn tapast. Þeir sem spiluðu voru: Ási, Ástmar, Magnús, Pétur Guðni og Tómas.

 

Árgangur 2003 spilaði sína leiki á sunnudag en í þeim árgangi voru aðeins þrír leikmenn þeir Oddi, James og Helgi og fengu þeir því aðstoð frá 2005 árganganginum í leikjunum. Fyrsti leikurinn var gegn Tindastóli en það var jafn og skemmtilegur leikur. Annar leikurinn var gegn ÍR 2 þar sem okkar menn áttu erfitt uppdráttar. Þriðji leikurinn var svo gegn Breiðablik 2 og reyndist hann strákunum ansi erfiður enda var mikill stærðar og atgerfismunur á liðunum.

 

Strákarnir eru reynslunni ríkari eftir þetta skemmtilega mót og stóðu sig sem fyrr segir með mikilli prýði. Þess má geta að mótshaldarar voru einstaklega ánægðir með að KFÍ skildi leggja á sig þetta ferðalag og mæta til leiks.

Deila