Strákarnir í 9. flokki héldu suður með sjó um helgina og hófu keppni á Íslandsmótinu í C-riðli sem fram fór í Röstinni í Grindavík. Segja má að skipst hafi á skin og skúrir hjá drengjunum því á laugardeginum töpuðust báðir leikirnir en á sunnudeginum sýndu strákarnir hvað í þeim býr og lönduðu tveimur góðum sigrum.
Strákarnir mættu ÍA í fyrsta leik mótsins. Eftir slæma byrjun unnu strákarnir sig smátt og smátt inn í leikinn og var hann jafn alveg fram í fjórða leikhluta þegar Skagamenn fóru að síga fram úr. Lokatölur 50-66 fyrir ÍA.
Strákarnir fengu litla sem enga hvíld fyrir næsa leik gegn Ármanni. Róðurinn var þungur hjá Vestramönnum í þessum leik og án efa einhver þreyta í mannskapnum eftir fyrri leikinn. Birgir Örn Birgisson þjálfari liðsins lagði upp með að spila langar sóknir en þær voru að hans sögn bitlausar og því fór sem fór og Ármenningar unnu 54-31.
Þrátt fyrir erfiðan laugardag voru strákarnir ekki af baki dottnir. Fyrsti leikur sunnudagsins var gegn heimamönnum í Grindavík. Þetta reyndist hörku spennandi leikur. Eftir erfiða byrjun í fyrsta leikhluta sem endaði 7-16 fyrir Grindavík komu strákarnir sterkir inn í annan leikhlutann og minnkuðu muninn í 25-26. Þriðji leikhluti var áfram jafn og í lok hans var staðan 40-43. Í síðasta leikhlutanum komu strákarnir mjög sterkir til leiks og skoruðu 8 síðustu stigin sem skilaði 58-50 sigri. Gott veganesti inn í lokaleikinn gegn Keflvíkingum.
Saga þessarar helgar voru slæmar byrjanir hjá strákunum og varð það rauninn gegn Keflvíkingum en staðan eftir fyrsta leikhluta var 7-13 fyrir Keflavík. Í öðrum leikhluta fóru hlutirnir að ganga betur og náðu strákarnir að minnka muninn í 3 stig 20-23 þegar hálfleiknum lauk. Keflvíkingar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og skoruðu fyrstu 4 stigin. En eftir það vöknuðu okkar menn og spiluðu frábæra vörn og skotin fóru að detta. Staðan eftir þriðja leikhluta 36-31 fyrir Vestra. Fjórði og síðasti leikhlutinn var svo algjörlega eign Vestramanna. Varnarleikurinn frábær og endaði leikurinn með glæsilegum sigri 51-34.
Flottur endasprettur hjá strákunum sem tryggðu sér áframhaldandi veru í C-riðli í næstu umferð.
Áfram Vestri!
Deila