Fréttir

Góður sigur Vestra í Höfn

Körfubolti | 22.12.2018
Hilmir Hallgrímsson átti sinn besta leik í vetur á Höfn og fyllti skarð læriföðurs síns Nebojsa Knezevic af stakri prýði.
Ljósmynd: Anna Ingimars.
Hilmir Hallgrímsson átti sinn besta leik í vetur á Höfn og fyllti skarð læriföðurs síns Nebojsa Knezevic af stakri prýði. Ljósmynd: Anna Ingimars.
1 af 2

Vestri mætti Sindra í Höfn í Hornafirði í gærkvöldi í 1. deild karla. Þrátt fyrir að stór skörð séu hoggin í lið Vestra létu strákarnir slíkt ekki á sig fá og unnu góðan sigur 66-76. Með sigrinum komst Vestri í þriðja sæti deildarinnar sem verður að teljast fínn árangur fyrir jólafrí.

Líklega þurfa engin lið að ferðast um jafn langan veg til að mætast og þessi tvö en u.þ.b. 900 kílómetrar skilja bæjarfélögin að. Vestramenn lögðu af stað á miðvikudaginn og tóku góða æfingu á Hólmavík eins og er að verða venja þegar lagt er af stað í langar keppnisferðir. Eins og áður segir mætti lið Vestra nokkuð þunnskipað til leiks en aðeins níu leikmenn voru á skýrslu og þar á meðal var sjálfur þjálfarinn Yngvi Gunnlaugsson. Nebojsa Knezevic varð fyrir smávægilegum meiðslum í bikarleiknum gegn Haukum, Guðmundur Auðun er enn að jafna sig af meiðslum og eins og fram hefur komið er nýr liðsmaður Vestra Jure Gunjina ekki kominn með leikheimild. Það var reyndar svipað upp á teningnum hjá Sindramönnum því aðeins sjö leikmenn voru á skýrslu hjá þeim.

Leikurinn fór rólega af stað og var stigaskor frekar lágt. Varnarleikur Vestra bar þess nokkur merki að liðið var þunnskipað og greinilegt að forðast átti að lenda í villuvandræðum. Sindramenn fengu því nokkuð af opnum skotum í fyrsta leikhluta sem þeir nýttu sér ágætlega á meðan Vestramenn voru nokkuð óheppnir í skotum. Sindri leiddi því með 21 stigi gegn 16 eftir fyrsta fjórðung. Það var ánægulegt að sjá Vestramenn halda sínu striki og nýta styrk Nemanja inn í teignum þar sem hann var algjörlega einráður. Í hálfleik hafði kappinn tekið álíka mörg fráköst og Sindra liðið í heild sinni. Í hálfleik var staðan 35-34 Sindra í vil. Í seinni hálfleik mættu Vestramenn mjög ákveðnir til leiks og þá fóru þriggja stiga skotin að detta en liðið fékk talsvert af opnum skotum upp úr því að boltanum var komið inn á Nemanja sem iðulega var þrídekkaður og kom boltanum út á opna menn. Segja má að Vestri hafi gert út um leikinn í þriðja fjórðungi en liðið skoraði 28 stig gegn 10 stigum Sindra. Okkar menn gáfu aðeins eftir í loka fjórðungnum en það kom ekki að sök og niðurstaðan góður sigur.

Nemanja var besti maður vallarins, skoraði 26 stig og tók hvorki meira né minna en 28 fráköst auk þess að gefa 3 stoðsendingar. Bakvarðaþrenningin Hilmir, Ingimar og Hugi fylltu skarð Nebojsa vel. Ingimar og Hilmir skoruðu 16 stig hvor og voru með í kringum 40% þriggja stiga nýtingu – frábært dagsverk hjá þeim félögum. Hugi átti einnig góðan leik en hann skoraði 7 stig og tók 8 fráköst. Gunnlaugur átti einnig fínan leik í stöðu framherja með 7 stig og 5 fráköst. Haukur Hreinsson komst líka vel frá sínu hlutverki þegar hann leysti bakverðina af, hélt boltanum vel og sýndi yfirvegun og öryggi. Helgi Bergsteinsson og Rúnar Ingi komu einnig inn á með ferska fætur í seinni hálfleik og skiluðu sínu. Níundi maður á skýrslu, Yngvi Gunnlaugsson, kom ekki við sögu en stóð vaktina í brúnni af stakri prýði eins og áður.

Þetta var síðasti leikur ársi en næsti leikur er heimaleikur gegn sterku liði Hattar frá Egilsstöðum á Jakanum þann 11. janúar.

Deila