Fréttir

Góður sigur gegn Snæfelli

Körfubolti | 02.12.2019
Hilmir Hallgrímsson átti fínan leik á föstudaginn. Ljósmynd: Anna Ingimars.
Hilmir Hallgrímsson átti fínan leik á föstudaginn. Ljósmynd: Anna Ingimars.
1 af 4

Síðastliðinn föstudag tók Vestri á móti Snæfelli í 1. deild karla í körfubolta. Leiknum lauk með öruggum sigri Vestra 96-77. Næsta verkefni er bikarleikur í 16 liða úrslitum gegn úrvalsdeildarliði Fjölnis fimmtudaginn kemur.

Stórt skarð var höggvið í lið Vestra því miðherjinn Nemanja Knezevic var frá vegna smávægilegra meiðsla. Þetta hefur reyndar verið saga liðsins í vetur en aðeins einu sinni hefur tekist að tefla fram  fullskipuðu liði það sem af er. Fjarvera Nemanja kom þó ekki að sök. Allir leikmenn Vestra tóku þátt í leiknum og skiluðu sínu. Bræðurnir James og Blessed Parilla náðu báðir stórum áfanga á sínum leikmannaferli. Blessed skoraði sín fyrstu stig í 1. deild með glæsilegri þriggja stiga körfu undir lok leiks og James spilaði sínar fyrstu mínútur í meistaraflokki.

Stigahæstur í liði Vestra var Nebojsa með 27 stig, 6 stoðsendingar og 3 fráköst. Ingimar Aron átti flottan leik með 19 stig, þar af 5 þriggja stiga körfur en hann gaf líka 3 stoðsendingar. Hilmir átti flottan leik með 12 stig og 4 stoðsendingar. Matic skoraði 10 stig og gaf 6 stoðsendingar. Marko og Helgi Snær skoruðu 8 stiga. Hugi skorði 6 stig og tók 13 fráköst, frábær innkoma hjá honum eftir meiðsli. Blessed skoraði 3 stig eins og áður segir og Egill skoraði 2 og tók 5 fráköst. Þorleifur og James komu einnig við sögu og komust vel frá sínu.

Næst á dagskrá er bikarleikur gegn sterku liði Fjölnis. Við hvetjum alla til að mæta á fimmtudagskvöldið og styðja strákana til sigurs í bikarnum.

Deila