Fréttir

Hamar mætir á Jakann

Körfubolti | 23.02.2018
Strákarnir í Vestra lögðu Fjölni í síðustu umferð. Nú mæta Hamarsmenn á Jakann. Ljósmynd: Bára Dröfn Karfan.is
Strákarnir í Vestra lögðu Fjölni í síðustu umferð. Nú mæta Hamarsmenn á Jakann. Ljósmynd: Bára Dröfn Karfan.is
1 af 2

Hamarsmenn koma í heimsókn á Jakann í dag, föstudaginn 23. febrúar, og mæta Vestra í sannkölluðum toppslag. Leikurinn hefst kl. 19:15 að vanda. Þetta er síðasti heimaleikur Vestra í deildarkeppninni og því um að gera að mæta og styðja við bakið á strákunum.

Hamarsmenn sitja í fjórða sæti deildarinnar en okkar menn í öðru sæti. Þessi staða segir þó ekki alla söguna því í raun munar aðeins einum sigri á liðunum auk þess sem Hamar á leik til góða gegn botnliði ÍA. Leikurinn hefur því mikið vægi og gæti til dæmis skorið úr um hvort liðið öðlast heimavallaréttinn í úrslitakeppninni framundan. Liðin hafa mæst tvívegis í vetur. Vestri sigraði í fyrri leiknum hér heima með 12 stiga mun í nóvember en Hvergerðingar náðu að hefna í Frystikistunni í byrjun janúar með eins stigs sigri. Sigurvegarinn í kvöld mun því standa betur að vígi í innbyrðis viðureignum.

Vestramenn sigruðu Fjölni á útivelli síðastliðinn mánudag og sýndu að þeir eru ekki af baki dottnir þótt þeir sakni miðherjans sterka Nemanja Knezevic sem er frá í bili vegna meiðsla. Varnarleikur liðsins í þeim leik var til fyrirmyndar og greinilegt að menn eru að ná áttum eftir að skarð var hoggið í liðið.

Nú þurfa strákarnir á öllum mögulegum stuðningi að halda og hvetjum við alla Ísfirðinga og nærsveitarfólk til að mæta á Jakann og hvetja liðið. Rétt er að geta þess að leikurinn verður að sjálfsögðu sýndur í beinni útsendingu á Jakinn TV.

Grillmeistarar Vestra verða í fríi að þessu sinni en grillið verða í fríi í kvöld en sjoppa Barna- og unglingaráðs mun bjóða upp ljúffengar pylsur og eitthvað fleira gómsætt.

Áfram Vestri!

Deila