Fréttir

Hamraborgarmótið framundan

Körfubolti | 21.02.2018
Hamraborgarmótið 2018 fer fram á Torfnesi mánudaginn 26. febrúar.
Hamraborgarmótið 2018 fer fram á Torfnesi mánudaginn 26. febrúar.

Hið árlega Hamraborgarmót Kkd. Vestra og Hamraborgar verður haldið á mánudaginn kemur, 26. febrúar. Það er meistaraflokkur karla hjá Kkd. Vestra sem stendur að mótinu og býður hann til keppni öllum börnum í 1.-6. bekk grunnskóla. Allir á þessum aldri eru velkomnir, hvort heldur sem þeir æfa körfubolta að staðaldri eða ekki.

Mótinu verður tvískipt og hefja yngstu keppendur í 1. og 2. bekk leik kl. 16 en þeir eldri byrja kl. 17.00. Að keppni lokinni í hvorum aldurshópi er þátttakendum boðið upp á rjúkandi heitar pizzur úr Hamraborg. Mótið fer fram í íþróttahúsinu á Torfnesi, á spánýju og glæsilegu parketgólfi, og er allt til reiðu fyrir skemmtilega keppni.

Allstór hópur iðkenda Kkd. Vestra er senn á leið á Nettómótið í Reykjanesbæ, sem er landsins stærsti körfuboltaviðburður. Það fer fram fyrstu helgina í mars og því er Hamraborgarmótið kærkomið tækifæri til að æfa sig aðeins i spili áður en haldið er suður með sjó til að takast á við mótherja úr öðrum landshlutum.

Hlökkum til að sjá sem flesta káta krakka á Torfnesi á mánudagseftirmiðdag um leið og við hvetjum foreldra til að koma og horfa á krakkana í keppni. Heitt á könnunni.

Deila