Fréttir

Háspennu sigur gegn Snæfelli

Körfubolti | 29.01.2018
Frábær sigur gegn Snæfelli .
Frábær sigur gegn Snæfelli .

Það var sannkallaður háspennuleikur á Jakanum í kvöld þegar Vestri mætti Snæfelli í 1. deild karla í körfubolta. Leikurinn var jafn og skemmtilegur en lokasekúndurnar voru eins spennuþrungnar og hægt er að hugsa sér í þessari mögnuðu íþrótt. En þegar klukkan gall stóð Vestri  uppi sem sigurvegari og staðan 76-75.

Bæði lið höfðu orðið fyrir blóðtöku fyrir leikinn, þrjá lykilleikmenn vantaði í lið Snæfells og Vestri saknaði Ágústs Angantýssonar og Hinriks Guðbjartssonar sem meiddist í leik gegn Skallagrími. Snæfellingar byrjuðu betur og hittu gríðarlega vel fyrir utan þriggja stiga línuna en segja má að Vestramenn hafi verið ögn stirðir í gang þótt sóknarleikur beggja liða hafi verið flottur.  Snæfellingar leiddu því eftir fyrsta fjórðung, 18-25. Í öðrum leikhluta náðu heimamenn að komast betur í takt við leikinn og náðu að jafna með flottir þriggja stiga körfu Björns Ásgeirs á lokasekúndu hálfleiksins.

Sóknarlega tókst báðum liðum að spila upp á styrkleika sína í fyrri hálfleik, Vestramenn með því að leita inn í teig til Nemanja og Snæfellingar með því að skapa sér opin skot fyrir utan. Í seinni hálfleik snerist leikurinn við því varnarleikurinn varð ofan á. Svæðisvörn Vestra  virkaði vel og um leið fóru skot Snæfells að geiga og niðurstaðan var sú að Hólmarar náðu aðeins að skora 7 stig. Þegar fjórði leikhlutinn var hálfnaður leiddi vestri með 11 stigum 71-60 og flestir áhorfendur hættir að naga neglurnar. Gestirnir voru þó hreint ekki á því að gefast upp. Christian Covile átti magnaða spretti á þessu tímabili bæði í vörn og sókn og leiddi sína menn áfram.

Lokasekúndurnar urðu því æsi spennandi og verðskulda heila efnisgrein. Bæði lið voru komin í skotrétt og því ljóst að leikurinn gæti ráðist á vtítalínunni. Christian Covile fór á línuna þegar 9 sekúndur voru eftir og minnkaði muninn í eitt stig. Yngvi Gunnlaugson tók þá leikhlé og teiknaði upp kerfi til að éta sem mest af klukkunni. Áður en Snæfellingar náðu að brjóta liðu 5 sekúndur af klukkunni. Björn Ásgeir fór á línuna og klikkaði á báðum skotum sínum en fyrirliði Vestra, Nökkvi Harðarson, náði af harðfylgi frákastinu og strax í kjölfarið var brotið á honum sem þýddi að hann fór á vítalínuna. Þarna voru tvær og hálf sekúnda eftir af leiknum. Nökkvi klikkaði á fyrra vítinu og hefur e.t.v. ætlað að klikka viljandi á því síðara til að éta klukkuna niður. En ef fyrirliðinn hafði það í hyggju má segja að áætlunin hafi aðeins tekist til hálfs. Visslega fór vítið forgorðum en ekki vildi betur en svo að boltinn snerti ekki hringinn. Það verður hann hinsvegar að gera til að klukkan fari af stað. Frábærir dómarar leiksins, þeir Sigmundur Herbertsson og Kristinn Óskarsson, dæmdu því boltann því úr leik sem gaf Inga Þór þjálfara Snæfells færi á að taka leikhlé og klukkan áfram í 2,5 sekúndum. Snæfellingar nægan tíma til að stela sigrinum. En lukkan var í liði með Vestra og hinn magnaði leikmaður Christian Covile klikkaði á lokaskotinu og sigur Vestra var staðreynd.

Magnaður leikur og alveg á hreinu að hvergi var hægt að fá betri skemmtun litlar 1.000 krónur.

Á vef KKÍ má finna ítarlega tölfræði leiksins. Bestu menn Vestra voru líkt og svo oft áður þeir Nemanja og Nebojsa Knezevic. Nemanja skilaði 20 stigum og 24 fráköstum auk 5 stoðsendingum. Nebojsa skoraði 18 stig og gaf 10 stoðsendingar. Í stigaskorinu kom fyrirliðinn Nökkvi Harðason næstur með 16 stig og Ingimar Baldursson skilaði 15 stigum ásamt frábæru framlagi varnarlega rétt eins félagi hans fremst í vörninni Björn Ásgeir Ásgeirsson. Allir leikmenn liðsins lögðu sig vel fram og skiluðu sínu hluverki með prýði.

Næsti leikur Vestra er svo útileikur gegn Breiðabliki en eftir þessa umferð eru Blikar jafnir Vestra að stigum í öðru sæti með 26 stig en fast á hælana koma Hamarsmenn með 24 stig og leik til góða.

Hér að neðan má svo finna viðtöl við þjálfara liðanna eftir leik sem Þormóður Logi Björnsson hjá Jakinn-TV tók.

 

 

Deila