Fréttir

Haukarnir héldu út og flugu burt með tvö stig

Körfubolti | 15.02.2014
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson / BB.is
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson / BB.is
Haukar mættu KFÍ í kvöld á Ísafirði í Domino's deild karla. Bæði lið mættu fullmönnuð en KFÍ hafði endurheimt Mirko Stefán Virijevic sem missti af leik liðsins við Grindavík eftir að hafa meiðst á móti KR síðastliðinn föstudag.
 
 
Hafnfirðingar voru mikið grimmari í byrjun leiks og eftir fimm og hálfa mínútu var staðan orðin 6-20 fyrir gestina. Heimamenn hrukku þó aðeins í gang eftir að Jón Hrafn Baldvinsson tók sig til og skoraði 5 stig í röð. Ísfirðingar réðu þó ekkert við Hauk Óskarsson sem setti 13 stig í leikhlutanum, þar af þrist um leið og leikhlutanum lauk og tryggði Haukum örugga 18-31 forustu eftir fyrsta leikhluta.
 
Ísfirðingar mættu tilbúnari til leiks í öðrum leikhluta og hjuggu muninn niður 8 stig, 30-38. Eftir það tóku Haukar hins vegar öll völd á vellinum og settu 10 ósvöruð stig í röð og komust 18 stigum yfir.
 
Þegar maður er kominn ofan í holu þá hættir maður að moka. Það höfðu Ísfirðingar að leiðarljósi næstu mínúturnar þegar þeir sundurspiluðu gestina í vörninni og kafsigldu þá í sókninni. Fremstir þar í flokki voru Valur Sigurðsson og Josh Brown sem skoruðu öll stiginn í 13-0 áhlaupi KFÍ en Valur kórónaði góðan leik í leikhlutanum þegar hann setti niður þrist rétt áður en klukkan flautaði hálfleik.
 
Staðan í tepásunni var 43-48 og skyndilega orðinn alvöru leikur í gangi.
 
Heimamenn slökuðu ekkert á klónni í byrjun þriðja leikhluta og náðu forustunni, 55-52, eftir að Valur Sigurðsson hafði sett 2 þrista í röð. Jafnræði var með liðunum út leikhlutann og fór KFÍ með 67-64 forustu inn í fjórða.
 
Mest komst KFÍ í 78-71 eftir þrist frá Jón Hrafni Baldvinssyni en Haukar skoruðu þá 7 stig í röð og náðu forustunni aftur, 77-78, þegar 1:55 voru eftir.
 
Kári Jónsson setti niður risastóran þrist þegar um 40 sekúndur voru eftir og kom Haukum í 77-83. Josh Brown var þó ekki búinn að gefast upp og svaraði hinum megin nokkrum sekúndum seinna með fadeaway þrist með tvo varnarmenn í andlitinu.
 
Lengra komust Ísfirðingar hins vegar ekki og kláraði Terrence Watson leikinn af vítalínunni og 80-85 sigur Hauka staðreynd.
 
Hjá KFÍ var Josh Brown stigahæstur með 31 stig og 10 fráköst, Mirko Stefán kom næstur með 17 stig, Valur Sigurðsson setti 12 stig og Jón Hrafn 10.
 
Hjá Haukum var Watson bestur með 28 stig, 14 fráköst og 4 varin skot. Haukur Óskarsson kom næstur með 17 stig og Kári Jónsson bætti við 10 stigum.
 
 
Umsögn tekin af karfan.is
 
  
Deila