Fréttir

Heimaleikur gegn Skallagrími

Körfubolti | 03.03.2020
Vestri mætir Skallagrími þriðjudaginn 3. mars.
Vestri mætir Skallagrími þriðjudaginn 3. mars.

Skallagrímur kemur í heimsókn á Jakann í kvöld kl. 19:15. Þetta er annar leikur liðanna á skömmum tíma því liðin mættust í Borgarnesi fyrir tæpum tveimur vikum. Leikur kvöldsins átti upphaflega að fara fram 20. desember síðastliðinn en var frestað vegna veðurs.

Líkt og fyrr verður grillið orðið heitt um kl. 18:30 með ljúffengum Vestraborgurum. Strákarnir þurfa á stuðningi að halda á pöllunum enda er hver leikur dýrmætur nú í aðdraganda úrslitakeppninnar.

Þótt staða liðanna sé ólík á töflunni var leikurinn í Borgarnesi um daginn jafn og spennandi en lauk með sigri Vestra 89-85. Skallagrímsmenn eru með ungt og sprækt lið og munu þeir án efa koma fullir sjálfstrausts inn í leikinn í kvöld eftir að hafa fundið lykt af sigri í Fjósinu á dögunum. Vestramenn hafa verið á miklu flugi undanfarið og hafa unnið fjóra leiki í röð, nú síðast á föstudaginn gegn toppliði Hamars. Leikur liðsins hefur farið stigvaxandi að undanförnu enda eru lykilleikmenn smátt og smátt að koma inn aftur eftir meiðsli, þótt liðið sé ekki fullskipað enn þar sem Hugi hefur ekki náð fullkomnlega af sínum meiðslum. Þá er óvíst hvort leikstjórnandi knái Matic Macek geti spilað með vegna höfuðhöggs sem hann fékk í leiknum í Borgarnesi sem varð til þess að hann hvíldi gegn Hamri. Þá verður bakvörðurinn Toni Jelenkovic að sitja þennan leik af sér þar sem hann var ekki genginn til liðs við Vestra þegar leikurinn átti upphaflega að fara fram og er því ekki löglegur í leiknum.

Þeir sem ekki komast á leikinn þurfa ekki að missa af honum því hann verður sýndur í beinni útsendingu á þessari YouTube rás Viðburðastofu Vestfjarða.

Áfram Vestri!

Deila