Fréttir

Heimaleikur gegn Skallagrími og 8. flokks fjölliðamót

Körfubolti | 25.02.2016
KFÍ tekur á móti Skallagrími á föstudaginn kl. 18:30.
KFÍ tekur á móti Skallagrími á föstudaginn kl. 18:30.

Það er stór körfuboltahelgi á Ísafirði framundan, heimaleikur hjá karlaliðinu í 1. deild á föstudaginn kl. 18:30 og fjölliðamót hjá 8. flokki drengja á laugardag og sunnudag. Auk þess keppir 8. flokkur stúlkna á fjölliðamóti í Reykjavík um helgina.

 

Leikur karlaliðsins gegn Skallagrími hefst kl. 18:30, föstudaginn 26. febrúar. Skallagrímur situr sem stendur í 3. sæti deildarinnar og hafa leikið vel í vetur þótt þeim hafi fatast flugið í síðustu umferð gegn erkifjendunum í ÍA. KFÍ þarf á sigri að halda til að forðast falldrauginn enda aðeins fjórar umferðir eftir.

 

Aðgangseyrir á leikinn er 1.000 kr og við hvetjum alla til að mæta.

 

Sem fyrr er leikurinn í beinni útsendingu á Jakinn-TV.

 

Á laugardag og sunnudag fer svo fram 4. umferð Íslandsmótsins hjá 8. flokki drengja hér á Ísafirði í B-riðli. Þar etur KFÍ kappi við Ármann, Grindavík, Skallagrím og Stjörnuna. Þess má geta að strákarnir voru hársbreidd frá því að komast upp í A-riðil í síðustu umferð. En fyrsti og eini tapleikur liðsins í vetur skildi þá eftir í B-riðli í síðustu umferð svo nú verður án efa allt lagt í sölurnar.

 

Leikjaplan helgarinnar má nálgast hér að neðan en allir leikirnir fara fram á Torfnesi. Við hvetjum að sjálfsögðu allt körfuboltaáhugafólk til að mæta og sjá þessa efnilegu stráka keppa.

 

Laugardagur:

13:00 KFÍ - Skallagrímur/Reykdælir

14:00 Grindavík - Stjarnan

15:00 Ármann - Skallagrímur/Reykdælir

16:00 KFÍ - Stjarnan

17:00 Ármann - Grindavík

 

Sunnudagur:

09:00 Grindavík - KFÍ

10:00 Ármann - Stjarnan

11:00 Skallagrímur/Reykdælir - Grindavík

12:00 KFÍ - Ármann

13:00 Stjarnan - Skallagrímur/Reykdælir

 

Deila