Fréttir

Höttur átti aldrei möguleika og KFÍ aftur á topp 1.deildar.

Körfubolti | 21.11.2009

Þegar komið var til leiks í dag voru Hattarmenn búnir að hækka meðalhæð um nokkra sentímetra. Tveir risar voru komnir með flugvél um morguninn en það voru þeir Morten Szmiedowicz og Georg Ögmundsson. Og var mikið fjör í upphitun hjá Hetti, menn að troða með látum og mátti búast við hörkuleik. En það reyndist ekki eins auðvelt og sást í upphituninni. Strákarnir í KFÍ komu af krafti til leiks og eftir sex mínútur var staðan 27-7 og endaði leikhlutinn 36-16. Vörnin var að svínvirka og komu góð hraðaupphlaup með Matt Zova í miklu stuði, en hann var kominn með 12 stig gegn Kevin Jolley og Morten í fyrsta leikhluta auk þess sem hann hirti fjöldan allan af fráköstum.

Annar leikhluti var jafnari þar sem Borce var farinn að hvíla lykilmenn sína og gefa ungviðinu sénsinn. Daníel Midgley kom inná í byrjun leikhlutans og byrjaði að stela boltum af leikmönnum Hattar og hinn 18 ára Florijan Jovanov  nýtti tækifærið sitt vel og setti 8 stig í leikhlutanum. Pance og Leó settu báðir þrista ásamt því að Matt hélt áfram að spila frábærlega. Staðan í hálfleik var 58-32.

Í þriðja leikhluta byrjaði Borce að rótera vel og leyfa yngstu leikmönnunum að spila, enda þetta góð reynsla. Florijan hélt áfram að spila vel og Gummi, Óskar og Leó komust vel frá sínu. Þeir yngstu voru ekki langt frá því að skora en heilladísirnar voru ekki með þeim í dag. Jafn leikhluti þar sem Kevin og Davíð Ragnarsson voru skástu menn Hattar, en sá síðarnefndi er mikið efni. Staðan eftir þriðja var 77-50. 

Fjórði leikhlutinn var að mestu spilaður af yngstu drengjunum þeim Gumma (16), Óskari (16), Florijan (18) og Jón Kristni (17) ásamt því að þeir eldri svona með þeim til halds og trauts. Frekar tilþrifalítill leikhuti endaði og lokatölur 91-65 og KFÍ komið á topp 1. deildar.

Hjá KFÍ voru Allir að skila sínu en það var liðsheildin sem skilaði þessum leik og héldu allir sig við leikáætlun Borce.

Hjá Hetti var Björgvin Karl skástur ásamt Davíð Ragnassyni. Kevin var sprunginn sem og Bjössi. Morten sýndi gamla takta, en var í engu formi. Það er skarð fyrir skildi að Ágúst Dearborn var í banni, en hann fékk þriggja leikja bann fyrir atvik sem gerðist fyrir austan. Steinólfur Jónasson og Emil Atli hefðu að óskekju átt að fá fleiri mínútur. Þeir eru báðir hörkuduglegir drengir og eru að taka 7-8 fráköst í leik samtals.

Þess má einnig geta að dómarar helgarinnar þeir Georg Andersen og Jóhann G. Guðmundsson voru mjög góðir. 

Stig Hattar. Kevin 16, Björvin Karl 15, Morten 12, Davíð 6, Björn 6, Einar 5, Hafliði 2, Georg 1.

Stig KFÍ. Matt 22, Darco 20, Florijan 15, Pance 12, Craig 10, Þórir 7, Leó 3, Hjalti 2.

Tölfræði leiksins

Deila