Í dag skrifaði Ingimar Aron Baldursson undir leikmannasamning við Kkd. Vestra og mun hann því leika með meistaraflokki karla keppnistímabilið 2017-2018. Ingimar Aron kemur vestur úr röðum Valsmanna þar sem hann lék í fyrstu deildinni síðasta vetur. Uppeldisfélag hans er KR. Ingimar er fæddur árið 1998 og er því einungis 19 ára gamall.
Það er mikið ánægjuefni fyrir félagið að Ingimar Aron skuli á leið vestur. Segja má að ferill hans eigi upphaf sitt á parketinu á Torfnesi en hann var aðeins tveggja ára gamall þegar foreldrar hans, Baldur Ingi Jónasson og Helga Salóme Ingimarsdóttir léku bæði í meistaraflokkum KFÍ veturinn 200-2001, og var Ingimar þá öllum stundum í húsinu, ýmist að sparka í mark eða skjóta á körfu. Foreldrar hans voru bæði miklar þriggja stiga skyttur og hefur Ingimar fetað í fótspor þeirra. Hann bjó í nokkur ár á Ísafirði en fjölskyldan fluttist þaðan til Akureyrar og síðan til Reykjavíkur.
Við bjóðum Ingimar Aron hjartanlega velkominn í Vestra.