Fréttir

Íslandsmeistarar KR koma í heimsókn

Körfubolti | 18.09.2015
Ljósmynd: Ingvi Stígsson.
Ljósmynd: Ingvi Stígsson.

Lengjubikarinn er kominn af stað og fyrsti heimaleikur KFÍ fer fram laugardaginn 19. september kl. 16:00 og er ekki af verri sortinni. Þá mæta sjálfir Íslandsmeistarar KR á Jakann með Evrópumótsfarann Pavel Ermolinskij í broddi fylkingar. Eins og gefur að skilja er verkefnið ærið og verður gaman að sjá strákana takast á við gríðarlega öflugt lið KR.

 

Lið KFÍ hefur tekið nokkrum breytingum frá síðasta tímabili en þó er kjarni leikmanna sá sami og í fyrra auk þess sem nokkrir öflugir uppaldir KFÍ strákar hafa snúið aftur ásamt ferskum aðkomuleikmönnum.

 

Þetta verður jafnframt vígsluleikur fyrir nýju skorklukkuna sem kominn er upp á Torfnesi. En klukkan er hin glæsilegasta og býður áhorfendum upp á umtalsvert meiri upplýsingar en gamla klukkan gerði. Á skjánum verður m.a. hægt að sjá nöfn leikmanna, fjölda villna, fjölda leikhléa og fleira. Sjón er sögu ríkari.

 

Leikurinn verður að vanda í beinni útsendingu á Jakinn TV.

 

Í gærkvöldi tapaði KFÍ í fyrsta leik Lengjubikarsins gegn Val á útivelli 79-60. Það var mikill haustbragur á leiknum eins og eðlilegt verður að teljast og skotnýtingin eftir því. Einnig er vert að geta þess að hvorki Nebojsa né Pance voru í hópnum og munar um minna. Florijan var stigahæstur með 17 stig en næstur kom Gunnlaugur Gunnlaugsson með 13.

 

Leikurinn gegn KR hefst sem fyrr segir kl. 16:00. Við hvetjum alla til að mæta.

 

Áfram KFÍ!  

Deila