Í dag er til moldar borinn mætur Ísfirðingur sem var einn af máttarstólpum ísfirsks körfuknattleiks um árabil. Jón Kristmannsson tók við formennsku í stjórn Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar árið 1994 og sinnti því starfi með miklum sóma í áratug, lengst allra formanna félagsins. Undir hans stjórn náði félagið að vinna sig upp í efstu deild og skipaði sér þannig á bekk með bestu liðum landsins. Með Jonna í brúnni komst KFÍ alla leið í úrslit bikarkeppni KKÍ árið 1998 og náði þriðja sætinu í úrvalsdeildinni það árið.
Jonni fylgdi liðinu sínu vel eftir og ávann sér virðingu í heimi körfunnar langt út fyrir raðir KFÍ. Hann stóð með félaginu í gegnum súrt og sætt gegnheill og traustur. Menn minnast stjórnarfundanna heima í stofu hjá Jonna og Huldu á Seljalandsvegi 36 þar sem alltaf var nýbakað með kaffinu. Hann lá ekki á skoðunum sínum ef hann taldi að hægt væri að gera betur enda mikill keppnismaður í íþróttum frá gamalli tíð og líkaði illa að tapa. Handtakið var þétt og sterkt og þegar ákvörðun lá fyrir var henni ekki hnikað. Jonni var sem klettur í starfi félagsins, hann hugsaði vel um sína og væru leikmenn eða stjórnarmenn í vanda var leitað til Jonna sem oftar en ekki leysti úr málum.
Þótt Jonni léti af störfum formanns árið 2004 var hann aldrei langt undan í starfinu enda studdi hann félagið í hvívetna fram á síðasta dag. Hann átti sinn fasta stað á Jakanum, heimavelli KFÍ, og lét sig helst ekki vanta á leiki. Hann vatt sér gjarnan að undirrituðum í hálfleik, fékk fréttir af starfinu og því sem var í vændum og lét ævinlega fylgja með hvatningu og heilræði. Hann brýndi okkur til góðra verka á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og fyrir það verðum við ávallt þakklát. Jón Kristmannsson var sæmdur bæði silfur- og gullmerki Héraðssambands Vestfirðinga fyrir framlag hans til íþróttalífs á Ísafirði, einkum dugmikið starf í þágu körfunnar.
Jonna Kristmanns verður sárt saknað af vinum og samferðafólki á Ísafirði en mestur er missirinn fyrir fjölskyldu hans og ástvini. Hugur okkar er hjá þeim á þessum þungbæru tímamótum en fjölskyldan hans Jonna er stór þáttur í starfi félagsins. Áhuginn á körfunni smitaðist til barna og barnabarna og dæturnar og tengdasynirnir hafa verið stoð og stytta í starfi félagsins til margra ára. Við vottum Huldu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð um leið og við þökkum samfylgdina við einstakan mann. Minningin um Jonna verður okkur hvatning í starfi um ókomin ár.
Með hinstu kveðju fyrir hönd okkar allra í Körfuknattleiksfélagi Ísafjarðar,
Sævar Óskarsson
formaður stjórnar KFÍ