Fréttir

KFÍ 1. deildarmeistarar!

Körfubolti | 28.02.2010
Flaggað - Deildarmeistarar 2010
Flaggað - Deildarmeistarar 2010
1 af 8

KFÍ tryggði sér 1.deildartitilinn með öruggum sigri á ÍA, 112-58 og eru því komnir upp í Iceland Express deildina.

Það var ljóst frá byrjun að KFÍ ætlaði sér að tryggja sér sætið í kvöld. Þeir komu ákveðnir til leiks og eftir smá hikst í byrjun þá fór staðan úr 8-4 í 16-4 og var Craig að stjórna leiknum eins herforingi. KFÍ skipti ört og voru þeir sem komu inn tilbúnir í að spila stífa vörn. Staðan eftir fyrsta leikhluta 30-15.

Sama var upp á teningnum í öðrum leikhluta og staðan fljótlega orðinn 39-15 og ekkert að ganga upp hjá skagadrengjunum. Og þegar gengið var til hálfleiks var staðan 57-28 og ljóst í hvað stefndi. Oft er það svo að strákarnir hafa misst einbeitinguna þegar þeir fá litla mótspyrnu, en ekki í dag. Aðal ástæða að þessu sinni var viljinn til að sigra og að spila vel fyrir fullu húsi. Áhorfendum fylltu Jakann og var gríðarlega góð stemning.

Í þriðja leikhluta var alveg á tæru að strákarnir ætluðu sér sætið í IE og strákarnir settu upp sýningu þar sem þeir settu þrista og svo var frábært að sjá samvinnu Craig og Igor þar sem sending frá litla manninum í loftið þar sem Igor kom og tróð með tilþrifum. SNILLD... Pance og Denis fóru svo í gang og röðuðu niður skotunum fyrir utan þriggja. En það voru allir að spila gríðarlega góða vörn og þegar farið var í síðasta leikhluta var staðan 93-43.

Borce skipti yngri strákunum inn á í lokaleikhlutanum og þeir sýndu einnig góð tilþrif, en góð blanda frá öllum í síðasta leikhluta tryggði okkur 112-58 sigur og deildarmeistaratitillinn í höfn.

Stigahæstir voru þeir Craig og Igor með 18 stig (11 fráköst og 3 varin) en stigaskorinu var bróðurlega skipt. Denis 14, Pance 13, Þórir 11, Darco 10, Atli 9, Florijan 6, Almar 8 (11 fráköst og 1 varið skot), og Nonni Sævarsson 3 stig.
Almar kom sterkur inn og er mikið efni. Craig er auðvitað "ekki hægt" og Igor "flýgur". En þessi leikur var án efa algjörlega leikur liðsheildarinnar og var rosalega gaman að sjá hvað strákanir komu tilbúnir í þennan leik með Þóri fyrirliða í broddi fylkingar.

Það er góð tilfinning fyrir bæjarbúa sem og allt félagið að fá tækifæri að vera meðal bestu liða landsins á næsta tímabili.

Það dylst engum að mikil vinna er framundan hjá KFÍ, en fyrir eru góðir starfsmenn með áratuga reynslu sem eru þegar byrjaðir að kortleggja næsta ár. Nú er gleði hjá okkur, en um leið vitum við að verkefninu er engan vegin lokið. Þór Þorlákshöfn er okkar næsti andstæðingur og þeir eru með mjög skemmtilegt lið og í baráttu með heimavallarréttinn, þannig að sá leikur mun verða hörkuleikur og skorum við á brottflutta vestfirðinga að koma í Þorlákshöfn næsta föstudagskvöld.  Það er alveg ljóst að KFÍ ætlar sér ekki að láta innbyrðis niðurstöðu nægja til þess að skera úr um deildarmeistaratitilinn.

Kærar þakkir til allra sem komu á leikinn í kvöld og nú viljum við fá ykkur öll aftur og með vini þegar við tökum á móti bikarnum föstudaginn 12 mars, en þá er heimaleikur gegn Ármanni og er góðvinur okkar hann Tommi Hermannsson að þjálfa það skemmtilega lið.

Áfram KFÍ.

Tölfræði leiksins
 

Deila