Fréttir

KFÍ býður eldri borgurum á heimaleik í körfubolta

Körfubolti | 28.10.2010
Hvað ungur nemur, gamall temur
Hvað ungur nemur, gamall temur

KFÍ tekur á móti Stjörnunni úr Garðabæ í íþróttahúsinu á Torfnesi annað kvöld og er það fjórði leikur KFÍ í Iceland Express-deildinni í vetur. Liðinu hefur gengið vel það sem af er leiktímabilinu og unnið tvo leiki og er skemmst að minnast síðasta heimaleiks gegn ÍR þegar KFÍ tókst að vinna upp 20 stiga forskot ÍRinga og sigra með 10 stiga mun í framlengingu. Óhætt er að segja að þakið hafi ætlað af íþróttahúsinu á Torfnesi þetta kvöld.

Mikil gróska er í starfsemi KFÍ um þessar mundir, meistaraflokkur karla byrjar  vel í úrvalsdeildinni, meistaraflokkur kvenna er kominn á fullan skrið eftir langt hlé og iðkendum hefur fjölgað í yngri aldurshópunum. Stór þáttur í velgengni KFÍ eru ötulir stuðningsmenn liðsins enda getur það skipt sköpum þegar heimamenn sýna stuðning í verki og fjölmenna á heimaleiki.

Körfubolti er hin besta skemmtun fyrir alla aldurshópa og til að vekja athygli á því vill KFÍ bjóða öllum, sem orðnir eru 67 ára og eldri, að koma á leikinn á föstudagskvöld þeim að kostnaðarlausu. Vonast KFÍ til þess að eldri borgarar á norðanverðum Vestfjörðum og víðar þiggi boðið og kynnist af eigin raun stemmingunni sem fylgir keppni í körfubolta. Það verður enginn svikinn af þeirri fjölskylduskemmtun. Leikurinn hefst kl. 19.15.

Deila