Fréttir

KFÍ heimsótti krakka á Þingeyri og Flateyri

Körfubolti | 28.05.2013
Kátir krakkar á Flateyri
Kátir krakkar á Flateyri

Þessa dagana stendur yfir kynningarátak á starfi yngri flokka KFÍ sem og kynning á Körfuboltabúðunum sem hefjast 5. júní næstkomandi. Byrjað var á að heimsækja krakkana á Þingeyri og er óhætt að segja að það hafi verið áhugasamur hópur sem tók á móti fulltrúum KFÍ í íþróttahúsinu. Þar var krökkunum sagt frá starfinu sem fer fram innan KFÍ og sömuleiðis frá æfingarbúðunum en síðan fór fram keppni í stinger og var hún æsispennandi. Tveir krakkar hafa þegar skráð sig í æfingabúðirnar og vonandi eigum við eftir að sjá fleiri mæta þar eða á æfingar hjá félaginu næsta vetur.

 

Í gær, mánudag, var farið í heimsókn á Flateyri og það var mikið fjör þegar við hittum krakkana þar í íþróttahúsinu. Þau fengu sömuleiðis kynningu á KFÍ og Körfuboltabúðunum en auk þess spurðu þau heilmikið um ýmislegt tengt körfubolta og var gaman að því. Auðvitað var keppt í stinger og vegna þess að við fengum góðan tíma í kynninguna þá gátum við skipt hópnum upp og farið í fleiri leiki. Það var mjög gaman að hitta þessa hressu krakka og sjá hvað þau höfðu mikinn áhuga og voru fljót að læra. Efnilegur hópur þarna á ferðinni.

 

Áfram verður haldið á miðvikudaginn en þá liggur leiðin til Suðureyrar þar sem við eigum stefnumót í íþróttahúsinu með súgfirskum krökkum. Við hlökkum mikið til og það sama má segja um væntanlega heimsókn okkar í Bolungarvík. 

Deila