Það var boðið upp á alvöru leik í kvöld og mikil barátta var í lofti og á láði. KFÍ þurfti að hafa fyrir þessu í kvöld og léku haukar vel í þrjá leikhluta, en síðan fjaraði undan þeim og drengirnir á klakanum settu Hauka á ís og lönduðu sigrinum, lokatölur 93-82.
Haukar byrjuðu leikinn mun betur en KFÍ og voru greinilega komnir til að sýna hinum nýja þjálfara sínum Pétri Rúðrik að þeir væru klárir í verkefni vetrarins. Og það virkaði vel og eftir fyrsta leikhluta var staðan 16-23 og KFÍ í hálfgerðu móki. En Björn bóndi hresstist í seinni helming fyrri hálfleiks og jafnt var með liðunum á lengstum, en þegar tehléð var blásið á var staðan 42-46 fyrir spræka drengi frá Hafnarfiði.
Eitthvað hefur tebollinn staðið í okkar mönnum í upphafi þriðja leikhluta því Haukar náðu 7 stiga forskoti hann miðjan (48-55) og fór um suma, en tvær góðar körfur frá Ara og Jóni Hrafni á hálfri mínútu kom okkur í 53-55 og það sem eftir lifði leikhlutans skiptust liðin á körfum og staðan var 63-66 þegar haldið var til þess fjórða.
Haukar byrjuðu betur í lokafjórðungnum og náðu 65-70 forskoti eftir tvær mínútur og aftur 67-73 og 69-75. En þarna kom að kafla Craig nokkrum Schoen. Hann stal þremur boltum og hreinlega flaug í gegn um göttótta vörn Hauka og kom okkur í 77-75 með góðri hjá Ara Gylfasyni sem setti stóran þrist. Núna snerist taflið við og ´"Ísdrengirnir" spóluðu sig í gang og settu í "afldrif" restina af leiknum, tóku 16-7 rispu og leikhlutann 30-16. Lokatölur 93-82.
Stig KFÍ Chris Miller-Williams 27 stig og 17 fráköst. Craig Schoen kom næstur með 26 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Ari Gylfason heldur áfram að spila vel, var með 25 stig og var með 100% vítanýtingu (11/11). Siggi Haff átti góðan leik og endaði með 7 stig og þeir Jón Hrafn og Kristján Pétur settu 4 stig hvor.
Stig Hauka. Jovanni Shuler var besti maður Hauka og setti 28 stig og tók 9 fráköst. Smith 19, Haukur 15 (átti góðan leik), Davíð 13, Guðmundur, Andri og Helgi 2 hvor og Emil 1 stig, en var í góðri gæslu Craig allan leikinn og er það erfitt verkefni.
Enn var það liðsheild KFÍ sem landaði þessum sigri og var báráttan til fyrirmyndar.
Dómarar leiksins voru þeir Davíð Jensson og Gunnar Thor Andrésson.
Deila