Fréttir

KFÍ sigur!

Körfubolti | 07.02.2010
Igor í leiftursnúningi (mynd Halldór Sveinbjörnsson)
Igor í leiftursnúningi (mynd Halldór Sveinbjörnsson)
1 af 7

Leikmenn KFÍ mættu tilbúnir og hungraðir í þennan mikilvæga leik.  Strax í fyrsta leikhluta var tóninn gefinn og staðan eftir hann var 23 - 8 heimamönnum í vil.  Ljóst að það yrði á brattann að sækja fyrir gestina.  KFÍ liðið hélt einbeitingu sinni og varðist tilraunum Vals til þess að komast aftur inn í leikinn og að lokum fóru leikar svo að sannfærandi sigur KFÍ var í höfn, 89-65!  KFÍ situr örugglega á toppnum í fyrsta sæti 1. deildar og héðan af verður ekki lituð um öxl.  Frábær leikur og góð skemmtun fyrir áhorfendur.

Annar leikhluti var jafnari og mikil barátta á milli liðanna.  KFÍ menn náðu að hrinda áhlaupi Vals í þessum fjórðung, sem fór 24 - 22 og í hálfleik var staðan 47 - 30 KFÍ í vil.  Þá var Craig nokkur Schoen búinn að stela boltanum af Völsurum sjö sinnum, skora 12 stig og gefa 3 stoðsendingar.  Þetta var gott framlag hjá Craig en það var auðvitað liðsheildin sem tryggði þessa stöðu því vörnin var búin að vera frábær eins og tölurnar sýna.  Valsmenn áttu í töluverðum erfiðleikum með að finna leiðina að körfunni og þannig vörn næst aðeins með góðri samvinnu allra leikmanna. 

Þriðji leikhluti var um margt svipaður og gerðu Valsmenn enn harða hríð að heimamönnum, enda farið að liggja á að narta í forskotið.  Igor skoraði fyrstu körfuna fyrir KFÍ en það var Sigurður F. Gunnarsson sem setti tvær 3ja stiga körfur ofan í fyrir gestina og skyndilega var staðan orðin 49 - 36.  Þá skellti KFÍ í lás og skiptu um gír, breyttu stöðunni í 58 - 40 og enn á ný fundu Valsarar fyrir ísköldum NV vindinum í fangið í leiknum.  Eftir þennan leikhluta var staðan 71 - 51 og öllum orðið ljóst að ef KFÍ menn héldu einbeitingu sinni væri ekkert nema stórslys sem kæmi í veg fyrir heimasigur.

KFÍ var algjörlega í bílstjórasætinu í lokaleihlutanum eins og þeir höfðu stjórnað leiknum í raun  allan leikinn.  Til að gera langa sögu stutta þá fór hann 18 - 14 og 24 stiga sigur staðreynd.  Sigurinn var liðsheildarinnar og allir komu við sögu.  Það verður þó að geta framlags nokkurra leikmanna og fyrstan ber að telja Igor Tratnik sem setti niður 33 stig og tók 11 fráköst.  Craig Schoen stýrði leik liðsins af öryggi og skoraði 16 stig, tók 3 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og stal 8 boltum.

Tveir leikmenn léku fyrsta leik sinn fyrir KFÍ á heimavelli í kvöld.  Atli Rafn Hreinsson kom til okkar fyrir leikinn gegn Haukum og er þetta því annar leikur hans með liðinu.  Hann lék í 22 min og skoraði 6 stig og tók 2 fráköst.  Almar Guðbrandsson lék í kvöld sinn fyrsta leik fyrir KFÍ.  Hann skoraði 4 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.  Fyrri stoðsendingin hann var sérstaklega glæsilega og augljóst að hann hefur næmt auga fyrir samspili og gefur ekkert eftir á báðum enda vallarins (2 blokk í kvöld).  Frábær liðstyrkur að fá þá félaga til okkar og bjóðum við þá velkomna til félagsins.

Hjá gestunum var Byron Davis atkvæðamestur með 25 stig, 3 fráköst og 5 stoðsendingar.  Sigurður Gunnarsson átti góða spretti og lauk leik með 11 stig og 8 fráköst. 

Dómarar voru þeir Georg Andersen og Steinar Orri Sigurðsson.  Þeir áttu þokkalegan leik, fylgdu nokkuð ákveðinni línu og t.d. voru dæmdar 4 tæknivillur í leiknum (1 á KFÍ og 3 á Val).  Auðvelt er að gagnrýna störf dómara, sérstaklega úr sæti fréttaritara (utan vallar!) en fullyrða má að þeir gættu jafnræðis og voru sjálfum sér samkvæmir.  Það vill oft gleymast að ef leikmenn gerðu jafnmörg mistök og dómararnir t.d. í þessum leik, ættu þeir sömu leikmenn fantagóðan leik og gætu farið ánægðir heim.

Deila