Fréttir

KFÍ stal sigrinum á lokamínútunum!

Körfubolti | 09.03.2012
KFÍ deildarmeistarar 2012
KFÍ deildarmeistarar 2012

Í lokaleik deildarinnar á þessu tímabili voru gestir KFÍ, lið Skallagríms frá Borgarnesi.  KFÍ var búið að tryggja sér sigur í 1. deildinni fyrir nokkru síðan og höfðu ef til vill ekki að miklu að keppa í kvöld, nema heiðurinn. Skallagrímsmenn eru hins vegar í mikilli rimmu um innbyrðis stöðu liða í úrslitakeppni deildarinnar og þurftu á sigri að halda. 

 

Það var líka greinilegt á upphafsmínutum leiksins að Skallarnir voru mættir til leiks með mikið erindi.  Heimamenn virtust ekki alveg eins tilbúnir í átökin og hikstuðu virkilega á köflum.  Enda fór það svo að gestirnir leiddu leikinn frá byrjun og staðan í hálfleik var 44:54 fyrir Skallagrím. Undir lok annars leikhluta fékk Craig Schoen dæmda á sig þriðju villuna og fann sig knúinn til þess að rökræða það eitthvað frekar við dómarana (aldrei góð hugmynd!) sem verðlaunuðu hann fyrir vikið með einni villu til viðbótar í formi tæknivillu. Hann hélt að því loknu til búníngsherbergja með fjórar villur á bakinu!

 

Pétur þjálfari blés greinilega einhverjum baráttuanda í lið sitt í hléinu því KFÍ menn mættu mun ákveðnari í upphafi þriðja leikhluta. Náðu þeir að minnka forskot Skallagríms niður í fjögur stig, 50:54 eftir tveggja mínutna leik.  Gestirnir héldu þó frumkvæðinu og voru alltaf nokkrum stigum yfir, eða þar til KFÍ náði að jafna (76:76) um miðbik fjórða leikhluta. KFÍ komst svo í fyrsta skipti í þessum leik yfir í næstu sókn, en eftir það skiptust liðin á því að leiða leikinn með 1-2 stigum.  Mikil spenna var í leiknum allt þart til lokaflautið gall, en þegar upp var staðið reyndist það vera KFÍ sem leiddi með einu stigi í lokinn. Niðurstaðan varð því seiglusigri á heimavelli í lokaleik þessa frábæra tímabils Ísfirðinga.  KFÍ sigraði 90:89 en Skallarnir voru virkilega óheppnir að ná ekki meiru og í raun ósanngjarnt í svona leikjum að annað liðið þurfi að tapa.

 

Edin Suljic átti algjöran stórleik í kvöld og skoraði 30 stig og tók 13 fráköst.  Chris Miller-Williams var einnig traustur með 20 stig og 8 fráköst.  Annars dreifðist stigaskor KFÍ nokkuð vel. Lloyd nokkur Harrison var potturinn og pannan í leik Skallagríms og endaði leikinn með 40 stig.  Borgnesingar virka samt mjög sannfærandi og verða teljast til alls líklegir í úrslitakeppni fyrstu deildar.

 

Það var greinilegt að stuðningsfólk KFÍ fjölmennti á Jakann í kvöld enda var allt fullt út úr dyrum og þröngt setinn bekurinn. Mikil sigurhátið hefst nú eftir að Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Friðrik Ingi Rúnarsson hafa afhent leikmönnum og þjálfara KFÍ sigurlaunin.

 

KFÍ: Edin Suljic 30/13 fráköst, Christopher Miller-Williams 20/8 fráköst, Jón H. Baldvinsson 9, Craig Schoen 8/8 stoðsendingar, Ari Gylfason 8, Hlynur Hreinsson 7, Kristján Andrésson 6, Hermann Óskar Hermannsson 2. 

 

Skallagrímur: Lloyd Harrison 40, Darrell Flake 15/15 fráköst, Sigmar Egilsson 11, Hörður Hreiðarsson 9/11 fráköst, Danny Sumner 7, Birgir Sverrisson 3, Egill Egilsson 2, Elvar Sigurjónsson 2.

 

Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson og Sigmundur Már Herbertsson.

Deila