Segja má að ákveðnum áfanga hafi verið náð í haust með því að KFÍ teflir á ný fram kvennaliði í meistaraflokk á Íslandsmótinu. Kvennalið félagsins hefur legið niðri frá tímabilinu 2012-2013. Stelpurnar hafa þegar leikið einn leik en á sunnudaginn kl. 14:30 leika þær sinn fyrsta heimaleik á Tofnesi og því er full ástæða til að kynna liðið nánar.
Liðið er að stórum hluta skipað ungum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki en auk þess eru nokkrir eldri og reynslumeiri leikmenn í hópnum. Einnig hefur verið gerður venslasamningur við Breiðablik og munu þrjár Blikastúlkur leika með liðinu eins og þær geta. Spilandi þjálfari liðsins er Labrenthia Murdock-Pearson sem kemur frá Bandaríkjunum þar sem hún á að baki feril í háskólaboltanum og með atvinnumannaliði.
Komnar: Alexandra Sif Herleifsdóttir (Í láni frá Breiðablik), Eva Margrét Kristjánsdóttir (Snæfell), Saga Ólafsdóttir (Hörður), Labrenthia Murdock-Pearson (Bandaríkin), Hlín Sveinsdóttir (Í láni frá Breiðablik), Guðrún Edda Bjarnardóttir (Í láni frá Breiðablik).
Alexandra Sif Herleifsdóttir - 1989 - Miðherji - Alexandra hefur leikið með Breiðablik síðan árið 2012, þaðan sem hún kemur á lánsamningi, en hún hefur einnig leikið með Val og Hamri. Alexandra var í sigurliði Breiðabliks í 1. deildinni síðastliðið vor.
Anna Soffía Sigurlaugsdóttir - 1981 - Framherji - Uppalin í KFÍ og steig sín fyrstu skref í meistaraflokk með félaginu um aldarmótin. Hefur einnig spilað með Laugdælum, Ármanni/Þrótti og Stjörnunni. Var lykilleikmaður í liði KFÍ sem spilaði við Grindavík um laust sæti í úrvalsdeildinni vorið 2012.
Eva Margrét Kristjánsdóttir - 1997 - Framherji - Eva er ein af efnilegustu leikmönnum landsins en hún lék lykilhlutverk með liði KFÍ í 1. deildinni á árunum 2011-2013 auk þess sem hún lék 5 leiki með U16 landsliði Íslands á sama tíma. Hún lék 5 leiki með U18 landsliðinu síðasta vor og var í æfingahópi A-landsliðsins. Síðastliðið tímabil lék Eva með Snæfell þar sem hún varð Íslandsmeistari auk þess sem hún var valin í stjörnuleik kvenna.
Guðrún Edda Bjarnardóttir - 1994 - Bakvörður - Guðrún kemur upp úr yngri flokkum Hrunamanna en hefur spilað með Breiðablik undanfarin ár. Hún var lykilleikmaður í liði Breiðabliks sem sigraði 1. deildina síðastliðið vor.
Hafdís Gunnarsdóttir - 1980 - Bakvörður - Hafdís hóf feril sinn með meistaraflokki KFÍ rétt fyrir síðustu aldamót og lék með félaginu til 2000 en á þeim tíma lék hún fjóra leiki fyrir U-20 landslið Íslands. Eftir það hélt hún til Reykjavíkur þar sem hún varð Íslands- og bikarmeistari með KR árin 2001 og 2002. Hún snéri til baka árið 2004 og hefur leikið ófáa leiki með félaginu síðan.
Hekla Hallgrímsdóttir - 1999 - Framherji - Nýliði sem kemur upp úr yngri flokkum KFÍ.
Hlín Sveinsdóttir - 1996 - Bakvörður - Hlín kemur upp úr yngri flokkum Breiðabliks, þaðan sem hún kemur á lánssamningi, og hefur verið að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki þeirra undanfarin ár.
Kristín Erna Úlfarsdóttir - 1996 - Bakvörður - Kristín er uppalin hjá Herði Patreksfirði en hefur leikið með KFÍ í yngri flokkum undanfarið ár. Hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með KFÍ veturinn 2011-2012.
Labrenthia Murdock-Pearson - 1991 – Bakvörður/Þjálfari - Labrenthia spilaði með Lewis University í Texas í háskólaboltanum á árunum 2009-2013 þar sem hún skoraði 10 stig að meðaltali í 116 leikjum. Hún hefur auk þess spilað sem atvinnumaður í Bandaríkjunum með liðinu Chicago Storm.
Linda Marín Kristjánsdóttir - 1999 - Bakvörður - Þreytti frumraun sína í meistaraflokki árið 2012 þá 13 ára gömul. Linda Marín var valin í æfingahóp U15 landsliðsins síðastliðinn vetur.
Rósa Överby - 1996 - Bakvörður - Rósa kemur upp úr yngri flokkum KFÍ og steig sín fyrstu skref í meistaraflokki árið 2012.
Saga Ólafsdóttir - 2000 - Framherji - Saga kemur upp úr yngri flokkum Harðar frá Patreksfirði og er nýliði í meistaraflokki.
Stefanía Helga Ásmundsdóttir - 1980 - Miðherji - Stefanía hóf ferilinn með Grindavík þar sem hún varð Íslandsmeistari árið 1997 auk þess sem hún lék 11 leiki með U-18 landsliði Íslands. Hún gekk til liðs við KFÍ árið 2001 og hefur spilað lykilhlutverk í liðinu síðan þá.
Deila