Föstudagurinn rann upp hýr og fagur á Ísafirði með stilltu veðri og björtu. Æfingarnar voru með sama fyrirkomulagi og hina dagana og haldið áfram að vinna með svipuð grunn atriði og áður. Á seinni æfingunni var farið í ýmsa skotleiki og forkeppni í einn-á-einn. Úrslit úr þessum leikjum og fleirum verða svo á morgun fyrir slit búðanna.
Þjálfaranámskeiðið í dag saman stóð af tveimur fyrirlestrum frá hjónunum Mörthu Ernstdóttur og Jóni Oddssyni. Martha fjallaði m.a. um Yoga og þátt andlegs undirbúnings í árangri íþróttamanna og markmiðasetningu. Þetta er mjög spennandi efni en því miður líklega vanmetið of oft. Ætli það séu ekki fáir íþróttamenn eða konur sem skara framúr án þess að rækta þennan þátt þjálfunar gaumgæfilega? Jón hélt svo fyrirlestur um kraftþjálfun og lyftingar, með sérstöku tilliti til þjálfunar iðkenda í körfuknattleik. Gerður var góður rómur að framlagi þeirra beggja og teljum við að þau séu ómissandi þáttur í þessum æfingabúðum.
Deila