Guðni Ó. Guðnason slítur búðunum. (Ljósm. H.Sigm)
Úrslit í einn á móti einum. (Ljósm. H.Sigm)
Steini og Eva mætt með pönnurnar. (Ljósm. H.Sigm)
Grillveislan hefst. (Ljósm. H.Sigm)
Kræsingar snæddar í sólinni. (Ljósm. H.Sigm)
Grillveisla við SV gafl Jakans! (Ljósm. H.Sigm)
Veðrið lék við búðargesti. (Ljósm. H.Sigm)
Þjálfararnir gerðu góðan róm að steinbítnum. (Ljósm. H.Sigm)
Í morgun voru hefðbundnar morgunæfingar en að þeim loknum var tekið til við úrslit í skotkeppnum (víti og 3ja stiga) sem og einn-á-einn keppninni. Skemmst er frá því að segja að keppnin var oft á tíðum mjög spennandi og mögnuð úrslit sáu dagsins ljós. Nöfn sigurvegara sem og þeirra sem voru valdir af þjálfurum búðanna efnilegastir og bestu leikmenn búðanna verða birt með lokafrétt af búðunum.
Að þessum keppnum loknum söfnuðust allir saman í salinn á Jakanum og ávarpaði framkvæmdastjóri búðanna, Guðni Ó. Guðnason hópinn. Þakkaði hann þar þjálfurum fyrir sitt góða framlag sem og iðkendum og öllum öðrum sem komu að búðunum á einn eða annan hátt. Almenn ánægja hefur ríkt í búðunum og kvaddi Guðni hópinn með þeim orðum að hann vonast til þess að sjá sem flesta aftur að ári liðnu þegar næstu æfingabúðir verða haldnar á Ísafirði (önnur vikan í júní 2011 - takið daginn frá!).
Eftir afhendingu verðlauna og viðurkenningarskjala var boðið til grillveislu fyrir utan íþróttahúsið. Þorsteinn Þráinsson og Eva Friðjþjófsdóttir (foreldrar Sigga Þorsteins) voru búin að koma upp Muurikka pönnunum og grilluði í gríð og erg pylsur, kjúkling og steinbít. Þetta rann ljúflega ofan í maga á svöngum krökkum sem áttu svo sannarlega allt gott skilið. Krakkarnir voru í ár, líkt og í fyrra, alveg frábær og óhætt að segja að þau séu hvert og eitt sjálfum sér, foreldrum og íþróttafélögum sínum til mikils sóma. KFÍ þakkar fyrir heimsókn þeirra sem langt að komu og einnig þátttöku heimamanna í búðunum og þeirra framlag til þess að skapa góðan anda. Vonumst til að fá sem flesta aftur að ári í Körfuboltabúðir KFÍ 2011.