Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2010: Guðmundur Bragason í örviðtali

Körfubolti | 11.06.2010
Guðmundur Bragason, Ingvi Þór og Jón Axel Guðmundssynir.  (Ljósm. H.Sigm)
Guðmundur Bragason, Ingvi Þór og Jón Axel Guðmundssynir. (Ljósm. H.Sigm)
Guðmund Bragason þarf vart að kynna fyrir áhugamönnum um íslenskan Körfuknattleik, en hann á að baki farsælan feril með Grindavík og Landsliðinu.  Hann kom vestur í æfingabúðirnar og er hér í hlutverki þjálfara og foreldris.  Synir hans Ingvi Þór (fæddur 98) og Jón Axel (fæddur 96) eru hluti af öflugum hópi krakka sem hingað eru komin frá UMFG.  KFÍ-síðan greip tækifærið og tók Guðmund tali í dag.

"Ég hafði heyrt vel af Körfuboltabúðunum látið í fyrra, en verð að viðurkenna að ég sá alls ekki fyrir hversu góðar þær raunverulega eru.  Það er að segja ekki fyrr en ég kom og sannreyndi þær sjálfur.  Skipulag æfinga, gæði þjálfara, frábært starfsfólk og fyrirmyndar aðstaða að öllu leyti hjálpast að við að skapa mjög samkeppnishæfar æfingabúðir (þótt víða væri leitað) sem enginn er svikinn af.  Fagmennskan er í fyrirrúmi og andinn góður.  Krakkarnir eru að fá nákvæmlega allt hérna sem þau þurfa að fá út úr svona æfingabúðum, enda eru þau mjög ánægð öll sömul.  Ég fullyrði það hér og nú að við komum með enn stærri hóp til Ísafjarðar á næsta ári og líklega verð ég farinn að hlakka til strax á sunnudaginn."

Þetta er aldeilis ekki ónýt einkunn frá landsliðsmiðherjanum fyrrverandi.  Ef við leyfum okkur að sletta, má líklega segja að hér eigi vel við orðtækið: "Seeing is believing!".  Við þökkum Grindvíkingum, eins og öllum öðrum gestum okkar, fyrir frábæra heimsókn og deilum tilhlökkun fyrir næstu æfingabúðir að ári með Guðmundi. Deila