Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2010: Gustavo Rios Gonzalez

Körfubolti | 12.06.2010
Gustavo Rios Gonzalez.  (Ljósm. H. Sigm)
Gustavo Rios Gonzalez. (Ljósm. H. Sigm)

Fréttaritari KFÍ-síðunnar greip Gustavo á milli æfinga og fékk hann í stutt örviðtal.  Líkt og aðrir gestir hérna fékk hann spurningar um hvernig hann teldi að búðirnar væru að ganga og hvort hann vildi koma einhverjum skilaboðum til krakkanna eða foreldra.

"Ég vil bara óska öllum foreldrum, iðkendum og skipuleggjundum búðanna til hamingju!  Ég hef komið í fjölmargar æfingabúðir af þessu tagi og í hinum ýmsu mismunandi löndum meira að segja.  Ég verð þó að segja af einlægni að þetta er í fyrsta sinn sem ég upplifi jafn góðan samstarfsanda á milli þjálfara, iðkenda og allra annarra starfsmanna og gesta sem koma að búðunum.  Þetta er alveg einstakt og þið megið alveg gera ykkur grein fyrir því.  Krakkarnir eru vinnusöm og öguð í vinnubrögðum á æfingum, það tel ég vera mikinn kost hjá leikmanni.  Þau hafa réttu afstöðuna til körfuboltans og ef þau halda svona áfram eiga þau að geta náð góðum árangri.  Að lokum vil ég þakka Borce og öllum hér á Ísafirði sem gerðu mér kleift að koma hingað í þessar körfuboltabúðir."

Fréttaritari hefur venjulega ekki haft miklar áhyggjur af því þegar lof er borið á félagið, en það var ekki laust að það flæktist aðeins fyrir honum hvernig væri best að orða þýðingu á viðtalinu við Gustavo.  Öllum hér er ljóst að hann er hæfileikaríkur þjálfari og hefur náð vel til krakkanna sem hann þjálfar og kennir.  Við óskum Gustavo góðrar ferðar til Spánar að loknum búðum og alls hins besta í baráttunni í deildinni með liði sínu, La Laguna (Leb Gold) á Spáni næsta vetur.

Deila