Skapast hefur sú hefð í þessum æfingabúðum, að allir þjálfarar, fararstjórar og helstu fulltrúar styrktar- og samstarfsaðila KFÍ í þessu verkefni komi saman til dýrindis fiskiveislu í Tjöruhúsinu í Neðsta kaupstað. Guðni Ó. Guðnason bauð gesti velkomna og þakkaði styrktaraðilum KFÍ í þessu verkefni fyrir stuðninginn, en án hans væri róðurinn mun þyngri. Fram kom í máli Guðna að KFÍ býður til veislunnar en með góðum stuðningi Klofnings og þökkum við þeim enn á ný.
Guðjón M. Þorsteinsson stjórnarmaður í KKÍ, ávarpaði samkomuna og flutti kveðjur frá Hannesi S. Jónssyni formanni KKÍ og Ólafi Rafnssyni forseta FIBA Europe og ÍSÍ. Kom fram í máli Guðjóns og kveðjum þeim er hann flutti, að tekið hefði verið eftir þessum æfingabúðum KFÍ víða og að ánægja væri með þetta framtak. Að lokum færði Guðjón, Borce geisladisk með tónlist Rabba, eins af dyggustu stuðningsmönnum KFÍ fyrr og síðar, sem þakklætisvott og kveðjugjöf.
Að loknum þessu stuttu ræðum var ekki eftir neinu að bíða og töfruðu Magnús Hauksson og hans harðsnúna kokka- og þjónustulið fram hvern dásemdar fiskréttinn á fætur öðrum. Staðsetningin í Tjöruhúsinu er einstök og fylgir húsinu skemmtileg stemning. Áttu gestir okkar þarna mjög ánægjulega kvöldstund og héldu mettir og sælir til náða að henni lokinni.